Handbolti

Leik lokið: Ísland - Katar 39-29 | Öruggir í 16 liða úrslitin

Sigurður Elvar Þórólfsson í Sevilla skrifar
Íslendingar áttu ekki í vandræðum með að landa tíu marka sigri, 39-29, gegn Katar í lokaleik Íslands í B-riðli heimsmeistaramótsins í handbolta í Sevilla í kvöld. Staðan var 20-15 í hálfleik og sigurinn var aldrei í hættu. Guðjón Valur Sigurðsson var markahæsti leikmaður Íslands með 10 mörk og Þórir Ólafsson skoraði 9.

Þegar þetta er skrifað er ekki vitað hver mótherji Íslands í 16-liða úrslitunum verður en það veltur á úrslitum í leik Danmerkur og Makedóníu sem nú stendur yfir. Frakkar eru líklegustu mótherjarnir en Makedónía getur valið sér mótherja – með sigri mæta þeir Frökkum en Þjóðverjum ef þeir tapa.

Aron Kristjánsson gerði þrjár breytingar á byrjunarliðinu; Aron Rafn Eðvarsson byrjaði í markinu og hann varði alls 14 skot, flest í síðari hálfleik, Róbert Gunnarsson byrjaði á línunni í sókninni, og Þóri Ólafsson kom inn í hægra hornið á ný eftir að hafa hvílt gegn Dönum.

Það tók Íslendinga um 15 mínútur að hrista slakt lið Katar af sér. Ísland náði tveggja marka forskoti eftir 14 mínútur þegar staðan var 9-7 og íslensku strákarnir litu aldrei um öxl eftir það. Staðan var 15-10 í hálfleik og í þeim síðari breyttist lítið – lokatölur 39-29.

Þórir Ólafsson og Guðjón Valur Sigurðsson drógu vagninn í sóknarleiknum og skoruðu alls 19 mörk. Aron Pálmarsson hafði frekar hægt um sig og skoraði 3 mörk en hann tók aðeins 4 skot í leiknum – og fékk hann góða hvíld þegar Ólafur Gústafsson leysti hann af. Ólafur skoraði alls 4 mörk en hann var lengi í gang en fann sig þegar á leið. Róbert Gunnarsson skoraði 1 mark en hann virðist vera ná sér eftir meiðslin sem hann varð fyrir í fyrsta leiknum gegn Rússum.

Leikurinn gegn Katar fer ekki í sögubækurnar fyrir spennu og tilþrif. Skyldusigur sögðu leikmenn Íslands fyrir og eftir leik. Katar á enn langt í land með sitt lið en þeir verða gestgjafar á næst heimsmeistaramóti sem fram fer eftir tvö ár.

Aron: Áttum von á baráttuleik

Aron Kristjánsson, þjálfari íslenska landsliðsins, var ánægður með margt í leik Íslands gegn Katar í dag.

„Við vissum að þeir myndu selja sig dýrt. Þeir börðust og það tók tíma að hrisa þá af sér," sagði Aron í samtali við Arnar Björnsson eftir leikinn í dag.

„En sem betur fer náðu við góðri forystu í hálfleik og komust svo fljótlega í þægilega forystu í þeim síðari."

„Ég var ánægður með sóknarleikinn og hraðaupphlaupin í dag. Við fengum mikið af færum, sama hvernig við spiluðum. Ég hefði viljað fá betri vörn og markvörslu í fyrri hálfleik, en Aron kom sterkur inn í síðari hálfleik."

Ekki lá fyrir hver næsti andstæðingur Íslands yrði þegar viðtalið var tekið.

„Við tökum bara því liði sem við fáum í 16-liða úrslitunum," sagði Aron.

Þórir: Aðalmálið að vinna

Þórir Ólafsson var valinn maður leiksins gegn Katar í dag en hann skoraði níu mörk í leiknum, sem er persónulegt met á stórmóti.

„Við vorum að spila vel í dag. Okkur tókst að opna hornið oft og nýttum hraðaupphlaupin vel, sem er gaman," sagði Þórir í samtali við Arnar Björnsson eftir leikinn.

„Það er auðvitað alltaf gaman að skora en við ætluðum fyrst og fremst að vinna leikinn. Það tókst og er númer eitt."

„Við eru mnú búnir að gera okkar í dag og svo sjáum við til hvað gerist. Ég á ekki óskamótherja en við tökum því sem kemur."

Guðjón Valur: Þeir héldu ekki í við okkur

Guðjón Valur Sigurðsson segir að sama hver næsti andstæðingur Íslands verði sé ljóst að strákarnir muni mæta klárir til leiks.

Ísland vann Katar í dag og tryggði sér þar með sæti í 16-liða úrslitum keppninnar. Andstæðingur Íslands verður Frakkland, ef Danmörk vinnur Makedóníu í kvöld.

„Þetta var eins og ég bjóst við. Þetta var erfiður og leiðinlegur fyrri hálfleikur. Við vorum pirraðir og þeir fengu að spila langar sóknir," sagði Guðjón Valur við Arnar Björnsson eftir leikinn.

„En svo náðum við að keyra upp hraðann og þeir náðu ekki að halda í við okkur. Við breyttum í 5-1 vörn í seinni hálfleik til að rugla taktinn hjá þeim. Það gekk ágætlega og um leið og við komumst 5-6 mörkum yfir var þetta aldrei spurning."

„Ég myndi helst vilja sleppa við Frakkana en í raun er mér alveg sama. En ef við fáum Frakkana þá verðum við tilbúnir í þann slag. Við verðum bara að bíða og sjá til."

Vignir: Þetta hafðist

„Þetta var ekki okkar besti leikur í dag en þetta hafðist. Aðalmálið var að vinna leikinn," sagði varnarmaðurinn Vignir Svavarsson eftir sigurinn á Katar í dag.

Vignir sagði í viðtali við Arnar Björnsson eftir leik að íslenska liðið geti spilað betri varnarleik en í dag.

„Ég held samt að vörnin sé ekki vandamál hjá okkur. Við getum alltaf gert betur, eins og í öllum leikjum. Þetta er einfaldlega verkefni sem við þurfum að leysa - þetta er ekki vandamál."

Það kemur í ljós í kvöld hvaða lið mætir Íslandi í 16-liða úrslitum keppninnar.

„Mér er alveg sama um næsta mótherja. Þetta verður bikarkeppni og við munu mæta trylltir til leiks og gera allt til að vinna hann - sama hverjum við mætum."

„Við erum klárir í næsta leik og verður spennandi að sjá hverja við fáum. Nú förum við í langt ferðalag á morgun og munum hefja undirbúning strax í kvöld."

Sverre: Gerðum nóg til að vinna

Sverre Jakobsson, leikmaður Íslands, var ánægður með að sæti Íslands í 16-liða úrslitum HM í handbolta væri tryggt.

Ísland vann Katar í lokaumferð riðlakeppninnar í dag og kemur í ljós síðar í kvöld hvaða andstæðingur bíður í 16-liða úrslitunum.

„Mér fannst við ekki gefa neitt extra af okkur - bara nóg til að vina. Við getum spilað miklu betur. En við erum komnir áfram og næsta verkefni er það sem gildir. Nú þurfum við að undirbúa okkur fyrir það."

„Við vorum einbeittir fyrir leikinn í dag og var sigurinn aldrei í hættu. Við mættum þannig til leiks. Við hefðum viljað spila betri vörn en það skiptir engu máli núna."

„Maður þarf alltaf að vera tilbúinn í stríð og bardaga. En það getur stundum verið erfitt að halda einbeitingu þegar liðið nær góðri forystu. En við kláruðum þetta í dag."

Myndir / Vilhelm Gunnarsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×