Viðskipti innlent

Steingrímur harmar óbilgirni ESB og Norðmanna

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ingunn AK á makrílveiðum.
Ingunn AK á makrílveiðum. Mynd/ HB Grandi.
Evrópusambandið og Noregur krefjast 90% hlutdeildar í makrílkvótanum sem veiddur verður á þessu ári og að Ísland, Færeyjar og Rússar fái einungis 10% samtals. Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, lýsti vonbrigðum með þessa ákvörðun Evrópusambandsins og Norðmanna í yfirlýsingu sem gefin var út í dag.

Í yfirlýsingunni segir Steingrímur að með þessari kröfu sé verið að hundsa hegðun makrílsstofnsins og þá staðreynd að hann sé að miklu leyti inni í landhelgi annarra ríkja. Í fyrra hafi 1,5 milljón tonna af sameiginlega markrílstofninu verið í íslenskri landhelgi þar sem hann hafi þyngst um 50%, samkvæmt niðurstöðum rannsókna.

Í yfirlýsingunni segir að makríldeilan verði ekki leyst nema að tekið verði tillit til lögvarinna hagsmuna allra viðkomandi ríkja. Íslendingar hafi lagt fram sanngjarnar sáttatillögur sem muni stuðla að verndun makrílstofnsins. Það séu hagsmunir allra að makríldeilan leysist.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×