Viðskipti innlent

Atvinnuástandið enn verst á Suðurnesjum

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Úr gögnum Vinnumálastofnunar má lesa að 1.187 hafi í síðasta mánuði verið í námi, á námskeiðum, grunnúrræðum eða í atvinnutengdum úrræðum.
Úr gögnum Vinnumálastofnunar má lesa að 1.187 hafi í síðasta mánuði verið í námi, á námskeiðum, grunnúrræðum eða í atvinnutengdum úrræðum. Fréttablaðið/Arnþór
Skráð atvinnuleysi dróst saman um 0,2 prósentustig milli ágúst og september samkvæmt nýbirtum tölum Vinnumálastofnunar.

Atvinnuleysið var 4,0 prósent í ágúst, en mældist 3,8 prósent í september. Líkur eru á að atvinnuleysi aukist aftur í þessum mánuði.

Fram kemur að atvinnuleysi hafi verið 4,3 prósent á höfuðborgarsvæðinu. „Á landsbyggðinni var atvinnuleysið 2,8 prósent. Mest var atvinnuleysið á Suðurnesjum, 5,4 prósent. Minnst var atvinnuleysið Norðurlandi vestra, 0,8 prósent.“

„Í september fækkaði körlum um 171 að meðaltali á atvinnuleysisskrá en konum um 423 og var atvinnuleysið 3,2 prósent meðal karla og 4,4 prósent meðal kvenna,“ segir í umfjöllun Vinnumálastofnunar.

„Atvinnulausum fækkaði að meðaltali um 493 á höfuðborgarsvæðinu en um 101 að meðaltali á landsbyggðinni.“

Alls voru 6.480 manns skráðir atvinnulausir í lok september, en þeir sem voru atvinnulausir að fullu eru sagðir hafa verið vegar 5.779.

„Fjöldi þeirra sem hafa verið atvinnulausir lengur en 6 mánuði samfellt er nú 3.491, fækkar um 403 frá ágúst og eru um 54 prósent þeirra sem voru á atvinnuleysisskrá í september.?

Fólk sem hefur verið atvinnulaust í meira en eitt ár samfellt var 1.940 talsins í septemberlok, en 2.072 í ágústlok. Í þeim hópi hafði því fækkað um 132 milli mánaða.

Fjórtan prósent allra atvinnulausra voru á aldrinum 16 til 24 ára. Heldur hefur þó fækkað í þessum hópi. Núna voru í honum 913 en voru 1.089 í september í fyrra.

Þá voru í lok síðasta mánaðar 1.211 erlendir ríkisborgarar án atvinnu, þar af 643 Pólverjar, eða 53 prósent útlendinga á skrá.

Vinnumálastofnun segir atvinnuleysi yfirleitt aukast á milli september og október. „Í fyrra jókst atvinnuleysið úr 4,9 prósentum í september í 5,2 prósent í október,“ segir í samantekt stofnunarinnar, sem gerir ráð fyrir því að þróunin í ár verði ekki ólík þróuninni í fyrra.

Gert er ráð fyrir að skráð atvinnuleysi í október aukist og verði á bilinu 3,9 til 4,2 prósent.

Skráð atvinnuleysi er mælt þannig að fjöldi atvinnuleysisdaga er umreiknaður í meðalfjölda einstaklinga, þar sem allir dagar í hverjum mánuði eru taldir nema laugardagar og sunnudagar og útkomunni deilt í áætlaðan mannafla á vinnumarkaði í hverjum mánuði.

Fram kemur að alls hafi verið 313 laus störf í almennri vinnumiðlun hjá Vinnumálastofnun í lok september, flest ósérhæfð eða 135 og 82 þjónustu-, sölu og afgreiðslustörf.

„Auk lausra starfa hjá Vinnumálastofnun voru 57 störf laus á Starfatorgi í lok september, sem ekki er sérstaklega miðlað af Vinnumálastofnun, flest sérfræðistörf eða 38.“

Af atvinnuleitendum voru 1.187 í námi, á námskeiðum, í grunnúrræðum eða í atvinnutengdum úrræðum í september, samkvæmt upplýsingum Vinnumálastofnunar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×