Viðskipti innlent

Aflaverðmætið jókst um 6% í fyrra

Aflaverðmæti íslenskra skipa nam 152,2 milljörðum króna á fyrstu ellefu mánuðum ársins í fyrra samanborið við 143,6 milljarða kr. á sama tímabili árið áður. Aflaverðmætið jókst því aukist um 8,6 milljarða kr. eða 6,0% á milli ára.

Þetta kemur fram á vefsíðu Hagstofunnar. Aflaverðmæti botnfisks var 89,7 milljarðar kr. sem er 2,6% aukning frá sama tíma árið 2011 þegar aflaverðmætið nam 87,4 milljörðum.

Verðmæti þorskafla var um 45,9 milljarðar kr. sem er 8,6% aukning frá fyrra ári. Aflaverðmæti ýsu, sem nam 11,5 milljörðum kr., jókst um 5,3% milli ára en verðmæti karfaaflans, sem nam 13,3 milljörðum kr., var u.þ.b. það sama og á tímabilinu janúar-nóvember árið 2011. Verðmæti ufsaaflans jókst um 6,3% milli ára og nam 8,8 milljörðum króna í janúar til nóvember 2012.

Verðmæti uppsjávarafla nam um 46,3 milljörðum króna í janúar til nóvember 2012, sem er 9,0% aukning frá fyrra ári. Aflaverðmæti loðnu nam 13,2 milljörðum kr. sem er 48,9% aukning samanborið við sama tímabil árið 2011 og verðmæti kolmunna, sem var 2,7 milljarðar á fyrstu ellefu mánuðum ársins 2012, jókst um rúmlega 2,4 milljarða milli ára.

Aflaverðmæti síldar nam 14,4 milljörðum króna í janúar til nóvember 2012 sem er 5,6% aukning milli ára. Hins vegar dróst aflaverðmæti makríls saman um 19,1% frá fyrra ári og var um 14,4 milljarðar. Nær enginn annar uppsjávarafli var veiddur á fyrstu 11 mánuðum ársins 2012. Aflaverðmæti flatfisksafla nam um 9,7 milljörðum króna, sem er 3,5% aukning frá janúar til nóvember 2011.

Verðmæti afla sem seldur er í beinni sölu útgerða til vinnslu innanlands nam 71,5 milljörðum króna og jókst um 17,1% miðað við fyrstu ellefu mánuði ársins 2011. Verðmæti afla sem keyptur er á markaði til vinnslu innanlands jókst um 9,3% milli ára og nam 19,7 milljörðum króna. Aflaverðmæti sjófrystingar nam 54,8 milljörðum í janúar til nóvember og dróst saman um 4,5% milli ára en verðmæti afla sem fluttur er út óunninn nam rúmum 5,2 milljörðum króna, sem er 16,0% samdráttur frá árinu 2011.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×