Viðskipti innlent

Frumvarp veldur tæplega tveggja milljarða tapi hjá ríkissjóði

Fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins segir að frumvarp um endurnýjanlega orkugjafa sem nú liggur fyrir Alþingi muni rýra tekjur ríkissjóðs um tæpa tvo milljarða króna. Því verði að mæta með samdrætti á öðrum sviðum eða nýrri tekjuöflun.

Markmiðið með frumvarpinu er að auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum á landi og draga úr losun gróðurhúsaloftegunda með hagkvæmum og skilvirkum hætti.

Í umsögn fjárlagaskrifstofunnar segir að verði frumvarpið óbreytt að lögum má gera ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs af vöru- og kolefnisgjöldum auk virðisaukaskatts geti dregist saman um 760 milljónir kr. á árinu 2015 og um 1.150 milljónir kr. á árinu 2016.

„Ekki er gert ráð fyrir þessu tekjutapi ríkissjóðs í áætlun ríkisstjórnarinnar um jöfnuð í ríkisfjármálum. Lögfesting frumvarpsins mun því að óbreyttu skerða afkomu ríkissjóðs og þyngja í sama mæli róðurinn að settu markmiði um afgang á ríkisrekstrinum og að greiða niður skuldabagga ríkissjóðs," segir í umsögn fjárlagaskrifstofunnar.

„Ríkisstarfsemin hefur verið rekin með greiðsluhalla og ef þessi lagasetning á ekki að verða til þess að auka á lánsfjárþörf ríkissjóðs hlýtur að verða að mæta því annaðhvort með samdrætti í útgjöldum annarra málaflokka eða með nýrri tekjuöflun."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×