Viðskipti innlent

Elvar Steinn nýr framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Nýherja

Samúel Karl Ólason skrifar
Elvar Steinn Þorkelsson, nýráðinn framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Nýherja.
Elvar Steinn Þorkelsson, nýráðinn framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Nýherja.
Elvar Steinn Þorkelsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Nýherja og mun hann hefja störf síðar í vikunni.  Í fréttatilkynningu frá Nýherja segir að hann hafi umtalsverða reynslu af innlendum og erlendum upplýsingatæknimarkaði.

Elvar var einn af stofnendum Teymis og var framkvæmdastjóri fyrirtækisins árin 1995 til 2000. Hann setti Microsoft Íslandi á laggirnar og var framkvæmdastjóri 2003-2006. Eftir það starfaði hann sem lykilstjórnandi hjá Microsoft í Rússlandi og Austur-Evrópu  í höfuðstöðvum Microsoft í Þýskalandi. Frá 2012 hefur Elvar starfað sjálfstætt og sem ráðgjafi hjá Capacent.

„Ég hlakka mikið til að takast á við þetta skemmtilega og krefjandi verkefni. Mikil sóknartækifæri felast í sterkum og traustum innviðum Nýherja, sem býr yfir miklum krafti sem virkja má enn frekar og ná þannig enn meiri árangri.  Nýherji byggir nú þegar á afar sterkum grunni þekkingar og reynslu starfsfólks. Saman ætlum við okkur að gera betur og höfða til viðskiptavina okkar með framúrskarandi þjónustu, sem mætir þörfum þeirra í hvívetna“  segir Elvar Steinn í tilkynningunni.

Elvar er tölvunarfræðingur að mennt frá California State University, Chico í BNA og er með MBA próf frá Kent Buisness school í Canterbury á Englandi. Hann er giftur Guðný Ósk Diðriksdóttir og saman eiga þau sex börn og eitt barnabarn.

„Það er fagnaðarefni að fá eins sterkan liðsmann og Elvar er í þann öfluga hóp sem nú starfar hjá Nýherja.  Djúp þekking hans á sviði upplýsingatækni og árangursrík reynsla af rekstri og stjórnun hérlendis og erlendis mun án efa nýtast til að efla enn frekar þjónustu- og lausnaframboð Nýherja á spennandi tímum sem eru framundan.“ segir Finnur Oddsson, forstjóri Nýherja.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×