Viðskipti innlent

Ráðinn aðstoðarmaður Skúla Mogensen

Guðrún Valdimarsdóttir hefur verið ráðin í starf aðstoðarmanns forstjóra WOW air, Skúla Mogensen. Guðrún starfaði sem fjármálastjóri hjá Viðskiptráði Íslands 2010 - 2012. Áður starfaði Guðrún sem forstöðumaður Sölusviðs hjá Kreditkorti. Guðrún er viðskiptafræðingur að mennt með MBA og M.Sc. í fjármálum fyrirtækja frá Háskólanum í Reykjavík. Eiginmaður Guðrúnar er Hörður Felix Harðarson lögmaður og saman eiga þau þrjú börn.

Framkvæmdastjóri flugrekstrarsviðs

Þá hefur Björn Ingi Knútsson verið ráðinn sem framkvæmdastjóri flugrekstarsviðs WOW air. Björn Ingi sat í stjórn WOW air frá stofnun félagsins. Björn Ingi Knútsson, er fæddur árið 1961. Hann lauk prófi frá Stýrimannaskólanum árið 1984, prófi í skipamiðlun frá London School of Foreign Trade árið 1985 og prófi í skipa- og hafnarekstrarfræði frá University of Wales í Cardiff árið 1987. Hann starfaði hjá Skipadeild Sambandsins og síðar Samskipum í ýmsum stjórnunarstöðum til ársins 1996 og var eftir það framkvæmdastjóri hjá Sofrana Unilines í Ástralíu og Nýja Sjálandi til 1998. Björn Ingi var skipaður flugvallarstjóri á Keflavíkurflugvelli 1. janúar árið 1999 og gengdi því starfi til ársins 2008. Hann var fastafulltrúi Íslands hjá Alþjóðaflugmálastofninni (ICAO) í Montreal árið 2005. Hann gengdi stöðu forstjóra Saltkaupa hf. frá 2008-2009. Björn Ingi hefur starfað sjálfstætt að verkefnastjórnun á Austurlandi frá árinu 2010. Björn Ingi er kvæntur Jónu Kristínu Þorvaldsdóttur sóknarpresti á Fáskrúðsfirði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×