Viðskipti innlent

Hundruðir sóttu um vinnu á safastað

Umsækjendur hrönnuðust inn á Suðurlandsbraut í morgunsárið.
Umsækjendur hrönnuðust inn á Suðurlandsbraut í morgunsárið.
Það er vægast sagt mikill áhugi á lausum störfum hjá staðnum Lemon, sem opnar á Suðurlandsbraut í mars. 350 manns sendu inn umsókn í síðustu viku og fylltist staðurinn af vongóðum "djúsurum" í starfsmannaviðtölum í morgun.

Stemningin sem Lemon boðar virðist hafa fallið í kramið hjá fólki í atvinnuleit. Staðurinn auglýsti eftir "fáránlega hressu starfsfólki á aldrinum 18-35 ára með ótrúlega útgeislun til að vinna á skemmtilegasta heilsubar landsins". Þá getur hafa spilað inn í að tekið var fram að starfsfólki mun ekki vera borguð eins lág laun og hægt er að komast upp með, heldur eins góð og hægt er.

Staðurinn verður samblanda af stöðunum Joe & the Juice, sem er geysivinsæll í Danmörku, og Pret A Manger, sem er stærsti skyndibitasali í Bretlandi.

"Við verðum með grillaðar sælkerasamlokur, safaríka hollustudjúsa, hafragrauta, salöt, skyr-smoothies og fleira og ætlum að búa til sama andrúmsloft og er á þessum stöðum þar sem fólki líður svo vel að það gleymir stund og stað,“ segir Jón Arnar Guðbrandsson sem stendur að staðnum ásamt Jóni Gunnari Geirdal.

"Við verðum með alls kyns nýja strauma og blöndum saman framandi hráefnum sem eiga eftir að trylla bragðlaukana,“ segir Jón Arnar.

DJ Margeir sér um tónlist staðarins og parið Hálfdán Pedersen og Sara Jónsdóttir sér um hönnun hans, en þau hönnuðu meðal annars Geysisbúðirnar og KEX Hostel.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×