Rannsóknaskip var í haust notað til að ná tuttugu borkjarnasýnum af hafsbotni á þremur svæðum í Skjálfanda en þetta var samstarfsverkefni Orkustofnunar, ÍSOR og Háskóla Íslands. Olíurannsóknastofa í Noregi hefur nú greint sýnin.

Ráðist var í rannsóknirnar á grundvelli þingsályktunar sem Alþingi samþykkti vorið 2011 og mælti fyrir um að tryggðir yrðu fjármunir til markvissra rannsókna á því hvort olía eða gas fyndist á landgrunni Íslands undan Norðausturlandi. Lengi hafði verið þrýst á slíkar rannsóknir en árið 1982 var boruð rannsóknarhola í Flatey í Skjálfanda. Merkja um olíu eða gas hefur einnig verið leitað í borholum í Grímsey án árangurs.
Skjálfandaflói var talinn einna vænlegastur að þessu leyti en þar höfðu jarðvísindamenn kortlagt mörghundruð holur á hafsbotni sem þóttu minna á grópir sem einkenna þekkt olíusvæði, eins og í Norðursjó.
„Það er því ljóst að ekki eru líkur á því að jarðgas sé að finna í Skjálfandanum," segir Orkustofnun um niðurstöðurnar og telur að uppstreymi jarðhitavatns eða grunnvatns geti skýrt holurnar.

„Það er ennþá möguleiki í Öxarfirðinum enda hefur fundist þar jarðgas í sýnum. Við förum núna og skoðum það betur,“ sagði Þórarinn Sveinn Arnarson.