Viðskipti innlent

Íslandsbanki ráðlagði sölu á Haga bréfum en Arion banki kaup

Magnús Halldórsson skrifar
Töluverður munur er á ráðgjöf greiningar Íslandsbanka annars vegar og greiningar Arion banka hins vegar fyrir fjárfesta, þegar kemur að hlutafé í Högum. Í greiningu frá 25. maí sl., þegar gengi bréfa Haga var 18,95, ráðlagði greining Íslandsbanka fjárfestum að selja bréf sín, og var verðmatsgengið áætlað vera 17, en gengi bréfa félagsins miðað við stöðuna við opnun markaða í morgun er 18.

Mánuði síðar, eða 25. júní, sl. sendi greining Arion banka frá sér fyrirtækjagreiningu á Högum og verðmat félagið á töluvert hærra gengi en Íslandsbanki, eða 20,45. Sama dag keypti A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins hlut í Högum, jók við hlut sinn úr 4,85 prósent í 6,32 prósent. Samanlagður hlutur Lífeyrissjóða Bankastræti 7, þ.e. bæði A og B deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, er nú 10,82 prósent.

Munurinn á fyrirtækjagreiningum bankanna er umtalsverður, þegar horft er til markaðsvirðis Haga. Miðað við gengið 20,45, sem Arion banki álítur verða virðismatsgengi, er virði hlutafjár Haga 24 milljarðar króna. Miðað við gengið 17, sem greining Íslandsbanka nefnir í sinni fyrirtækjagreiningu sem virðismatsgengi, er virði hlutafjár tæplega 20 milljarðar.

Nefnt er í greiningum Íslandsbanka og Arion banka á Högum, að greiningarnar séu ekki ætlaðar almenningi, og er sérstaklega tekið fram að þær séu einungis ætlaðar fagfjárfestum, og að hvorki megi afrita efnið, vitna í það né dreifa því, án skriflegs leyfis viðkomandi greiningadeilda.

Ritstjórnarlegt mat fréttastofu er það að greiningarnar eigi erindi við almenning, og eru þær birtar í fylgiskjölum hér að neðan í heild sinni.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×