Viðskipti innlent

Óttast að upptökur leki á netið

Lárus sætir ákæru fyrir umboðssvik vegna láns Glitnis til Milestone.
Lárus sætir ákæru fyrir umboðssvik vegna láns Glitnis til Milestone. Fréttablaðið/gva
Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur þess efnis að verjendur Lárusar Welding og Guðmundar Hjaltasonar, fyrrverandi yfirmanna hjá Glitni, eigi ekki rétt að fá í hendur geisladiska með upptökum af yfirheyrslum skjólstæðinga sinna.

Verjendurnir kröfðust þess að fá upptökurnar, ekki síst til að sannreyna að rétt væri farið með í endurritum af yfirheyrslunum sem eru meðal gagna málsins og eiga að vera orðrétt.

Saksóknarinn mótmælti þessu og benti á að verjendum og sakborningum stæði til boða að hlusta á upptökurnar í húsakynnum sérstaks saksóknara. Þá sagði saksóknari jafnframt að ef fallist yrði á kröfu verjendanna væri hætta á að upptökurnar kæmust í hendur einhverra sem þær ættu ekkert erindi við og að það gæti leitt til þess að þær birtust á veraldarvefnum.

Fallist er á þetta, bæði í niðurstöðum héraðsdóms og Hæstaréttar. Þar segir meðal annars að um rafrænar upptökur sé að ræða sem auðvelt sé að misfara með, komist þær í rangar hendur.

Verjendur Kaupþingsmanna í Al Thani-málinu svokallaða hafa gert sams konar kröfu og tekist verður á um hana fyrir dómi í lok mánaðar. - sh






Fleiri fréttir

Sjá meira


×