

Axel Bóasson, Íslandsmeistari í höggleik, lét verkin tala í dag á öðrum keppnisdegi Íslandsmótsins þar sem hann lék á 66 höggum eða 4 höggum undir pari vallar. Axel var í miklu stuði í dag og fékk hann alls sjö fugla á hringnum. Axel er samtals á pari Strandarvallar en hann hóf titilvörnina frekar illa í gær þar sem hann lék á 74 höggum.
Það blés hraustlega á kylfingina sem hófu leik snemma í morgun á Strandarvelli á Hellu þegar annar keppnisdagur af alls fjórum hófst á Íslandsmótinu í höggleik. Síðustu ráshóparnir í karlaflokknum fara ekki út fyrr en kl. 16 í dag en nokkrir af þeim sem voru í efstu sætunum eftir fyrsta daginn hafa nú þegar lokið leik. Haraldur Franklín Magnús úr GR erá meðal þeirra en hann lék á 74 höggum í dag eða +4 en hann var með næst besta skor gærdagsins 67 högg eða -3.
Annar keppnisdagur af alls fjórum fer fram í dag á Íslandsmótinu í höggleik á Eimskipsmótaröðinni en leikið er á Strandarvelli á Hellu. Rúnar Arnórsson úr Keili er með eitt högg í forskot í karlaflokknum en hann lék á 64 höggum í gær eða -4. Valdís Þóra Jónsdóttir úr Leyni er efst í kvennaflokknum en hún lék á 71 höggi eða +1.