Atvinnuleysi á Spáni hefur aldrei mælst meira í sögu landsins og er nú 24,6 prósent, en 5,7milljónir Spánverja eru án atvinnu. Sífellt fleiri leita á náðir hjálparstofnana til að fá matargjafir, jafnvel í millistéttarhverfum.
Engar vísbendingar eru um að atvinnuleysi komi til með að minnka á Spáni og horfurnar virðast enn dekkri en áður eftir tölurnar sem Hagstofa Spánar birti morgun.
Nú eru 24,6 prósent Spánverja án atvinnu en þetta er mesta atvinnuleysi sem mælst hefur í sögu landsins. Hvergi á evrusvæðinu er atvinnuleysið meira en á Spáni.
„Ég hef verið atvinnulaus í um það bil þrjú ár. Því miður er ástandið eins og það er. Ég vona bara að þetta skáni, og ég held að það muni gera það," Andres Rodriguez, íbúi í höfuðborginni Madrid.
Og þeir sem eru án vinnu eru ekki sérstaklega bjartsýnir á að hagur þeirra vænkist með haustinu.
„Ég held að það verði mjög erfitt að finna vinnu. Það er mjög erfitt núna. Kannski lagast það í vetur, í febrúar eða mars kannski, en ég geri ekki ráð fyrir að finna mikla vinnu," segir Jesus Alonso.
Atvinnuhorfur ungs fólks eru sérstaklega slæmar, en atvinnuleysi fólks á aldrinum 18-25 ára er nú 53,3 prósent.
Margir sem eru án tekna leita á náðir hjálparstofnana til að fá mataraðstoð eins og þessar myndir frá bækistöðvum Rauða Krossins í Madríd. Margir nýta sér matargjafir af þessu tagi á Spáni, jafnvel í millistéttarhverfum eins og Tres Cantos.
„Áður voru það helst útlendingar sem nýttu sér matargjafirnar. Undanfarið, sérstaklega á þessu ári, hefur þetta breyst. Núna eru flestir skjólstæðingar okkar innfæddir. Verstu dæmin eru fjölskyldur þar sem báðir foreldrarnir eru atvinnulausir," segir Laura Tejedor, starfsmaður Rauða Krossins í Madríd.
