Viðskipti innlent

Skuldabréfaútboði CCP lokið - 75 prósent umframeftirspurn

Magnús Halldórsson skrifar
Myndskot úr EVE-online.
Myndskot úr EVE-online.
Lokuðu útboði til fjárfesta á breytanlegum skuldabréfum útgefnum af CCP hf. lauk 4. júlí s.l. Í boði voru USD 15 milljónir og bárust áskriftir fyrir USD 26,3 milljónum eða rúmlega 75% umfram þá fjárhæð sem í boði var, að því er segir í tilkynningu frá CCP. Meðal kaupenda voru fagfjárfestar, þar á meðal lífeyrissjóðir. „Með hliðsjón af umframáskrift og mikilli þátttöku innlendra stofnanafjárfesta hefur stjórn CCP hf. ákveðið að nýta að fullu heimild frá hluthafafundi til að hækka útboðsfjárhæðina í USD 20 milljónir," að því er segir í tilkynningu frá CCP.

Þeir fjármunir sem aflað var í útboðinu styrkja lausafjárstöðu CCP. Verða þeir fjármunir sem aflað hefur verið í útboðinu nýttir í almennan rekstur CCP, ásamt því að styðja við alþjóðlega markaðssetningu á nýrri vöru CCP, fjölspilunartölvuleiknum Dust 514, sem CCP mun gefa út og markaðssetja síðar á þessu ári í samstarfi við Sony.

„Það er sérstaklega ánægjulegt að finna fyrir miklum stuðningi við félagið af hálfu innlendra lífeyrissjóða og annarra stofnanafjárfesta nú þegar fyrir höndum er næsta stóra skref í vexti félagsins. Við erum meðvitaðir um að þetta er fyrsta skuldabréfaútgáfa á innanlandsmarkaði í langan tíma, ef frá er talin útgáfa opinberra aðila og orkufyrirtækja, og gerum ráð fyrir að þetta sé vísbending um að íslenskur fjármálamarkaður sé áhugasamur um að styðja við önnur fyrirtæki sem fylgt geta okkar fordæmi. Einnig erum við stoltir af því að hafa sýnt fram á að mögulegt er að byggja upp áhugaverða og fjölbreytta fjárfestingarkosti á Íslandi í fleiri atvinnugreinum en þeim sem byggja á okkar verðmætu náttúruauðlindum," segir Hilmar Veigar Pétursson, framkvæmdastjóri CCP, í tilkynningu.

Stefnt er að því að skuldabréfin verði tekin til viðskipta í kauphöll Nasdaq OMX á Íslandi á næstunni.

Ráðgjöf og umsjón með útboðsferlinu var í höndum Arctica Finance hf.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×