Handbolti

Aron: Við vorum aldrei öruggir með Óla

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Stefánsson mun ekki spila á HM á Spáni.
Ólafur Stefánsson mun ekki spila á HM á Spáni. Mynd/Vilhelm
Ekkert verður af endurkomu Ólafs Stefánssonar í íslenska landsliðið í handbolta því hann ákvað að draga sig út úr HM-hópnum í gær.

„Við vorum aldrei öruggir með Óla því hann ætlaði alltaf að reyna að koma sér í form og við áttum eftir að sjá hvert ástandið væri á honum. Hann var kominn í mjög fínt líkamlegt alhliðaform en var ekki búinn að vera æfa mikinn handbolta frá því á Ólympíuleikunum. Þegar hann var að koma sér inn í handboltahreyfingarnar þá var lengra í land en hann gat sætt sig við. Það voru líka að gera vart við sig gömul hnémeiðsli sem hann var í vandræðum með. Hann er líka að fara að spila í Katar og fer í læknisskoðun þar í byrjun janúar. Þetta var bara niðurstaðan," sagði Aron Kristjánsson landsliðsþjálfari í gærkvöldi.

„Ásgeir Örn verður maður númer eitt og svo erum við með annan örvhentan mann í Erni (Hrafni Arnarsyni) og höfum líka rétthenta leikmenn sem geta leyst þessa stöðu. Það er gott að þetta skýrist svona fljótt í undirbúningnum og við þurfum ekkert að velta okkur neitt meira upp úr þessu," sagði Aron.

Það eru fleiri forföll hjá liðinu. „Ingimundur (Ingimundarson) er ekki með eins og stendur. Hann fer í myndatöku á morgun og þá sjáum við betur hver staðan á honum verður. Staðan var ekki alltof góð í dag og það er tvísýnt með hann," sagði Aron. Ólafur Bjarki Ragnarsson gat ekkert æft með liðinu í gær og Vignir Svavarsson kom ekki til landsins fyrr en seint. Aron vonast eftir því að báðir verði með á morgunæfingunni í dag.

Íslenska landsliðið mætir Túnis í Laugardalshöllinni klukkan 19.45 í kvöld. „Það þarf mikið að stilla saman núna og við höfum ekki mikinn tíma. Við höfum nýja menn í mörgum stöðum eins og í varnarleiknum til dæmis. Við verðum að reyna ná því að vinna vel út úr þessum Túnisleikjum og sjá til þess að þeir gefi okkur eins mikið og hægt er fyrir áframhaldið," sagði Aron.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×