Óvissa á Landspítalanum Steinunn Stefánsdóttir skrifar 6. desember 2012 06:00 Uppsagnir liðlega 250 af nærri 1.350 hjúkrunarfræðingum á Landspítalanum taka gildi 1. mars næstkomandi. Uppsagnirnar skapa mikla óvissu og ef til þess kemur að hluti eða allir þessir hjúkrunarfræðingar hætta störfum er ljóst að ástandið á spítalanum verður alvarlegt og það mun koma niður á sjúklingum og því starfsfólki sem eftir situr. Samningar hjúkrunarfræðinga eru ekki lausir fyrr en árið 2014 en uppsagnirnar koma til vegna langþreytu og óánægju hjúkrunarfræðinga vegna kjara sinna. Þekkt er að íslensku heilbrigðisstarfsfólki gengur vel að fá vinnu í nágrannalöndunum og talsvert margir starfa þar annað hvort alfarið eða að hluta með störfum hér heima. Staða þeirra hjúkrunarfræðinga sem sagt hafa upp störfum er því þannig að þorri þeirra á þess kost að fá til muna betur launað starf í öðru landi. Uppsagnirnar ber því að taka grafalvarlega. Nærri fjórðungssamdráttur hefur orðið á rekstri spítalans frá hruni. Það liggur í augum uppi að einhvers staðar kemur sá samdráttur niður og þar sem um 70 prósent af rekstrarkostnaði sjúkrahússins liggur í launum þá blasir við að samdráttar sér stað ekki bara í launum starfsmanna heldur ekki síður í auknu álagi vegna minni mönnunar, meðal annars vegna þess að dregið hefur úr forfallavinnu vegna veikinda starfsmanna. Þessu aukna álagi hefur starfsfólkið, þar á meðal hjúkrunarfræðingar, tekið með ótrúlegu jafnaðargeði og áfram veitt sjúklingum spítalans þá framúrskarandi aðhlynningu sem þeir þekkja sem reynt hafa. Eftir því sem misserin líða dregur þó úr þolinmæðinni og ljóst er að uppákoman í haust, þegar forstjóranum bauðst mörg hundruð þúsund króna hækkun á mánaðarlaunum sínum, dró mátt úr mörgum starfsmönnum sem fyrir höfðu þó ákveðið að standa af sér álagsaukningu og gera það besta úr stöðunni af virðingu fyrir starfi sínu og vinnustað og umhyggju fyrir sjúklingum. Hafa verður hugfast að lág laun hjúkrunarfræðinga er ekki nýr vandi. Þau komu ekki með hruninu, öðru nær. Þau eru partur af stærri vanda sem eru lág laun umönnunar- og uppeldisstétta. Legið hefur fyrir um langt skeið að laun hjúkrunarfræðinga verða að hækka. Þeir eiga að baki fjögurra ára háskólanám og hætt er við að þeim muni fækka sem hugnast að leggja slíkt nám á sig fyrir þau kjör sem nú bjóðast. Íslendingar hafa státað af framúrskarandi heilbrigðiskerfi. Gæði þess byggja fyrst og síðast á starfsfólki sem hefur metnað og ánægju af starfi sínu. Miklu skiptir að hægt verði að bjóða hjúkrunarfræðingum viðunandi kjör. Höggva þarf á hnútinn í þeirri deilu sem nú er uppi fljótt og örugglega til að leysa úr óvissu. Um það er ekki spurning hvort heldur hvernig, eins og innanríkisráðherrann orðaði það í gær. Til framtíðar dugir þó ekki minna en að endurmeta algerlega kjör hjúkrunarfræðinga. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Steinunn Stefánsdóttir Mest lesið Halldór 02.11.24 Halldór Baldursson Halldór Hvenær nær Bitcoin $1,000,000? Víkingur Hauksson Skoðun Verklausi milljónakennarinn Þórunn Sveinbjarnardóttir Skoðun „Hækkar bara og hækkar“ Hjalti Þórisson Skoðun Réttlæti Hallgríms Helgasonar Hildur Sverrisdóttir Skoðun Hversu góð eru laun lækna? Teitur Ari Theodórsson Skoðun Hvert er „útlendingavandamálið“? Karen Kjartansdóttir Skoðun Þrælar bankanna, lykiltölur Ragnar Þór Ingólfsson Skoðun Kveðja, nýútskrifaði kennarinn Hugrún Stefánsdóttir Skoðun Ég er alveg nógu verðmæt eins og ég er! Ragnheiður Stephensen Skoðun
Uppsagnir liðlega 250 af nærri 1.350 hjúkrunarfræðingum á Landspítalanum taka gildi 1. mars næstkomandi. Uppsagnirnar skapa mikla óvissu og ef til þess kemur að hluti eða allir þessir hjúkrunarfræðingar hætta störfum er ljóst að ástandið á spítalanum verður alvarlegt og það mun koma niður á sjúklingum og því starfsfólki sem eftir situr. Samningar hjúkrunarfræðinga eru ekki lausir fyrr en árið 2014 en uppsagnirnar koma til vegna langþreytu og óánægju hjúkrunarfræðinga vegna kjara sinna. Þekkt er að íslensku heilbrigðisstarfsfólki gengur vel að fá vinnu í nágrannalöndunum og talsvert margir starfa þar annað hvort alfarið eða að hluta með störfum hér heima. Staða þeirra hjúkrunarfræðinga sem sagt hafa upp störfum er því þannig að þorri þeirra á þess kost að fá til muna betur launað starf í öðru landi. Uppsagnirnar ber því að taka grafalvarlega. Nærri fjórðungssamdráttur hefur orðið á rekstri spítalans frá hruni. Það liggur í augum uppi að einhvers staðar kemur sá samdráttur niður og þar sem um 70 prósent af rekstrarkostnaði sjúkrahússins liggur í launum þá blasir við að samdráttar sér stað ekki bara í launum starfsmanna heldur ekki síður í auknu álagi vegna minni mönnunar, meðal annars vegna þess að dregið hefur úr forfallavinnu vegna veikinda starfsmanna. Þessu aukna álagi hefur starfsfólkið, þar á meðal hjúkrunarfræðingar, tekið með ótrúlegu jafnaðargeði og áfram veitt sjúklingum spítalans þá framúrskarandi aðhlynningu sem þeir þekkja sem reynt hafa. Eftir því sem misserin líða dregur þó úr þolinmæðinni og ljóst er að uppákoman í haust, þegar forstjóranum bauðst mörg hundruð þúsund króna hækkun á mánaðarlaunum sínum, dró mátt úr mörgum starfsmönnum sem fyrir höfðu þó ákveðið að standa af sér álagsaukningu og gera það besta úr stöðunni af virðingu fyrir starfi sínu og vinnustað og umhyggju fyrir sjúklingum. Hafa verður hugfast að lág laun hjúkrunarfræðinga er ekki nýr vandi. Þau komu ekki með hruninu, öðru nær. Þau eru partur af stærri vanda sem eru lág laun umönnunar- og uppeldisstétta. Legið hefur fyrir um langt skeið að laun hjúkrunarfræðinga verða að hækka. Þeir eiga að baki fjögurra ára háskólanám og hætt er við að þeim muni fækka sem hugnast að leggja slíkt nám á sig fyrir þau kjör sem nú bjóðast. Íslendingar hafa státað af framúrskarandi heilbrigðiskerfi. Gæði þess byggja fyrst og síðast á starfsfólki sem hefur metnað og ánægju af starfi sínu. Miklu skiptir að hægt verði að bjóða hjúkrunarfræðingum viðunandi kjör. Höggva þarf á hnútinn í þeirri deilu sem nú er uppi fljótt og örugglega til að leysa úr óvissu. Um það er ekki spurning hvort heldur hvernig, eins og innanríkisráðherrann orðaði það í gær. Til framtíðar dugir þó ekki minna en að endurmeta algerlega kjör hjúkrunarfræðinga.