Viðskipti innlent

Fréttaskýring: Hvað tekur langan tíma að koma upp 4G-neti á Íslandi?

Liv Bergþórsdóttir er fyrir miðju á myndinni
Liv Bergþórsdóttir er fyrir miðju á myndinni


Framkvæmdastjóri Nova segir innleiðingu 4G-þjónustu á Íslandi sennilega munu taka skemmri tíma en þegar 3G kom fram. Nú séu betri tæki fyrir neytendur en þá og ekki þörf á eins miklum framkvæmdum.

Fyrirhuguð innleiðing 4G-farsímaþjónustu á Íslandi, sem mun koma í kjölfar útboðs á tíðniheimildum á næsta ári, ætti að taka skemmri tíma en þegar 3G hóf göngu sína hér á landi upp úr 2007. Þetta segir Liv Bergþórsdóttir, framkvæmdastjóri Nova. Hún segir uppfærslu fyrirtækisins í 4G verða minni framkvæmd en uppsetningu 3G á sínum tíma.

"Það er erfitt að segja til um hversu hratt þjónustan tekur við sér, en það mun að miklu leyti velta á þeim tækjum sem verða í boði fyrir neytendur."

Liv tekur sem dæmi að þegar 3G byrjaði hafi fyrstu 3G-farsímarnir ekki verið mjög spennandi og það hafi ekki verið fyrr en með innreið iPhone og annarra snjallsíma sem hlutirnir fóru virkilega að gerast.

"Við þurftum að bíða lengur eftir góðum 3G-farsímum en við höfðum vonast til. Að þessu sinni veðjum við hins vegar á að hlutirnir gerist hraðar, því að tæknin er lengra á veg komin með snjallsímum, spjaldtölvum og fleiru."

4G-tækninni var fyrst hleypt almennt af stokkunum á Norðurlöndunum árið 2009 og eru nú helstu borgir og bæir innan dreifikerfanna, sem ná til um og yfir 90 prósenta íbúa.

Spurð hvort Ísland sé að dragast aftur úr í þróuninni segir Liv að svo sé ekki.

"Ef við horfum á Evrópu, heilt yfir, eru fyrirtæki þar einmitt núna að byggja upp 4G-netið hjá sér. Miðað við hvernig var með Ísland og upptöku 3G-kerfisins á sínum tíma, þar sem við vorum einna síðust af Evrópulöndunum, erum við á hárréttum tíma og nokkuð framarlega."

Hún bætir því við að uppbyggingin nú sé á réttum tíma þar sem fyrirséð er að netnotkun í símum, spjaldtölvum og öðrum þráðlausum búnaði muni aukast og 3G muni ekki anna því.

Fréttablaðið hefur þegar sagt frá kostnaðarmati á uppbyggingu 4G-nets á Íslandi, sem Mannvit gerði fyrir Póst- og fjarskiptastofnun. Þar gerir ein hugsanleg leið ráð fyrir að tíu megabita tenging sem næði til um 80 prósenta landsins, gæti kostað á bilinu 22 til 33 milljarða króna.

Aðspurð um þá fjárfestingu sem Nova þarf að leggja út í við uppfærsluna í 4G segir Liv að þó að það verði eflaust kostnaðarsöm framkvæmd og umfangsmikil ætti hún að verða talsvert umfangsminni en þegar 3G-netið var sett upp á sínum tíma.

"Einn kosturinn við 4G er að við þurfum í raun ekki að setja upp fleiri senda.

Við erum með nýlegt 3G kerfi og þó að við þurfum vitanlega að gera einhverjar breytingar, þurfum við ekki að setja upp annað sendakerfi við hlið þess sem nú er."

thorgils@frettabladid.is

Snjallsími og spjaldtölva. 4G-farsímanetið mun stórauka hraða á gagnaflutningum í farsíma og önnur tæki. Mynd/Vilhelm





Fleiri fréttir

Sjá meira


×