Viðskipti innlent

Sagði frá niðurfellingu kauprétta

Fjármálaeftirlitið fór í vettvangsferðir til umsjónaraðila útboðsins, Íslandsbanka og Straums, fyrr í vikunni. Þar fékk það meðal annars afrit af samskiptum starfsmanna þeirra við utanaðkomandi aðila. Gylfi Sigfússon er forstjóri Eimskips.fréttablaðið/stefán
Fjármálaeftirlitið fór í vettvangsferðir til umsjónaraðila útboðsins, Íslandsbanka og Straums, fyrr í vikunni. Þar fékk það meðal annars afrit af samskiptum starfsmanna þeirra við utanaðkomandi aðila. Gylfi Sigfússon er forstjóri Eimskips.fréttablaðið/stefán
Forstjóri Eimskips greindi formanni VR frá því að til stæði að fella niður kauprétti stjórnenda fyrirtækisins áður en hlutafjárútboði lauk. Fjármálaeftirlitið rannsakar hvort allir bjóðendur hafi setið við sama borð.

Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips, sagði Stefáni Einari Stefánssyni, formanni VR, að til stæði að falla frá kaupréttum stjórnenda félagsins áður en fagfjárfestaútboði lauk á fimmtudag í síðustu viku. Stefán Einar sagði Helga Magnússyni, stjórnarformanni Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, frá málinu í kjölfarið.

Fjármálaeftirlitið rannsakar hvort allir hafi setið við sama borð í lokuðu útboði til fagfjárfesta á 20 prósenta hlut í Eimskip sem lauk klukkan 14 síðastliðinn fimmtudag. Á meðal þess sem það rannsakar er hvort forsvarsmenn Eimskips hafi upplýst einhverja um að til stæði að fella niður kaupréttina áður en útboðinu lauk og hvort að umsjónaraðilar útboðsins hafi boðið völdum þátttakendum að gera fyrirvara um kaupréttina við tilboð sín.

Umfangsmiklir kaupréttir stjórnenda Eimskips urðu til þess að nokkrir af stærstu lífeyrissjóðum landsins ákváðu að taka ekki þátt í útboðinu. Stjórnendurnir féllu síðar frá kaupréttunum og var tilkynnt um það til kauphallar að kvöldi síðastliðins fimmtudags. Lífeyrissjóðurinn Festa óskaði í kjölfarið eftir því að FME myndi taka útboðið til rannsóknar. Sjóðurinn vill meðal annars meina að starfsmenn umsjónaraðila útboðsins, Íslandsbanka og Straums fjárfestingabanka, hafi boðið sumum þátttakendum í útboðinu að gera tilboð í hlutabréf Eimskips með fyrirvara um að kaupréttarsamningar stjórnenda yrðu felldir niður. Festa taldi ótækt að valdir fjárfestar hefðu fengið meiri upplýsingar en komu fram í útboðslýsingu og stóðu öðrum fjárfestum til boða. Auk þessa rannsakar FME auk þess hvort einhverjir hafi haft upplýsingar um að til stæði að fella niður kaupréttina á meðan að útboðinu stóð.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins fór eftirlitið meðal annars fram á það við Lífeyrissjóð verzlunarmanna á mánudag að hann upplýsti um hvenær forsvarsmenn sjóðsins hefðu fengið upplýsingar um að fallið yrði frá kaupréttunum. Það hefur auk þess farið í vettvangsferðir til umsjónaraðila útboðsins og fengið afrit af samskiptum starfsmanna þeirra sem áttu sér stað á meðan á útboðinu stóð.

Stefán Einar sendi forstjóra Eimskips tölvupóst klukkan 13.30 síðastliðinn fimmtudag þar sem hann gerði grein fyrir áhyggjum sínum vegna kaupréttanna, enda starfaði fjöldi félagsmanna VR hjá Eimskip og að hans mati væri málið farið að skaða fyrirtækið. Í póstinum lagði Stefán Einar síðan til að kaupréttirnir yrðu látnir niður falla. „Gylfi hringdi síðan í mig klukkan 13.45. Þar gerir hann mér grein fyrir því að hann sé að kalla saman stjórnarfund þar sem hann muni leggja til að þetta yrði fellt niður. Hann bað mig fyrir þessu í trúnaði sem ég geri ráð fyrir að geri mig að tímabundnum innherja. Ég lofaði því, nema ég spyr hvort ég eigi að hafa samband við lífeyrissjóðinn vegna þess að ég vissi að þeir voru á stjórnarfundi og að þeir væru að vinna að yfirlýsingu um málið.“

Stefán Einar kallaði í kjölfarið Helga Magnússon, stjórnarformann Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, út af stjórnarfundi í sjóðnum. Hann telur að klukkan hafi þá verið um fimm mínútur í tvö. „Ég hef það hins vegar staðfest úr tölvukerfinu hér að ég sendi tölvupóst á Gylfa Sigfússon klukkan 13.30. Hann hringdi í mig klukkan 13.45 og ég var kominn upp á skrifstofu hjá lífeyrissjóðnum klukkan fimm mínútur í tvö“.

Samkvæmt upplýsingum frá Lífeyrissjóði verzlunarmanna bárust upplýsingarnar inn á stjórnarfundinn stuttu eftir að útboðinu lauk.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×