Skoðun

Merkingarlaus þjóðaratkvæðagreiðsla

Sigurður Líndal skrifar
Í þeirri ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu sem fram fór sl. laugardag, 20. október, var spurt um það, hvort kjósandi vildi að tillögur stjórnlagaráðs yrðu lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá. Um 66% þeirra sem kusu svöruðu spurningunni játandi.

Nú hafa fleiri athugasemdir verið gerðar við tillögurnar en ég hef tölu á, en margar lúta að merkingarleysi og mótsögnum. Þetta hefur verið viðurkennt í verki, með því að nú um nokkurt skeið hefur starfshópur lögfræðinga verið að fara yfir tillögurnar, væntanlega til að sníða af ágalla þessa og fleira sem athugunarvert þykir.

Um hvað snerist þá þessi atkvæðagreiðsla? Um ófullburða plagg sem fullyrða má að landsmenn höfðu afar óljósa hugmynd um, hvað fæli í sér. Tæpitungulaust snerist atkvæðagreiðslan því ekki um neitt. Hér er unnið í anda sýndarlýðræðis sem er vísastur vegur til að rækta jarðveg fyrir pólitíska spillingu, þannig að hún verði stunduð í skjóli teygjanlegs lýðræðilegs umboðs sem túlka megi á hvaða veg sem er og réttlæta hvað sem er.

Forsætisráðherra lýsti því í Silfri Egils í gær að afgreiðsla endurskoðaðs stjórnarskrárfrumvarps yrði látin hafa algeran forgang á Alþingi og önnur mál látin bíða ef tími reynist ónógur. Þeirri hugsun verður nú varla varizt að með þessu sé verið að draga athyglina frá raunverulegum vandamálum, einkum atvinnumálum og skuldamálum heimila og fyrirtækja, enda skammt til kosninga. Og þá er spurningin hvort Alþingi standi í hlýðni við forsætisráðherra eða taki sjálft frumkvæði að því að taka á þeim vanda sem helzt brennur á þjóðinni.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×