Viðskipti innlent

OR mun tapa á Gagnaveitu

Mynd/Stefán Karlsson
Orkuveita Reykjavíkur (OR) fjárfesti fyrir 11,8 milljarða króna í Gagnaveitu Reykjavíkur fram til ársloka 2011. Þá hafði heildartap fyrirtækisins numið 3,2 milljörðum króna. Þetta kemur fram í nýbirtri úttektarskýrslu um OR og ársreikningum fyrirtækjanna.

Stjórn OR samþykkti í gær að selja minnihluta, 49 prósent, í Gagnaveitunni. Bjarni Bjarnason, forstjóri OR og stjórnarmaður í Gagnaveitunni, vill ekki gefa upp hvaða hugmyndir stjórnin hefur um virði hlutarins.

"Það á eftir að skoða fyrirtækið, gera einhvers konar sölulýsingu og verðmeta það," segir Bjarni. Dagur B. Eggertsson, formaður eigendanefndar OR, telur langtímafjárfesta á borð við lífeyrissjóði vafalítið munu hafa áhuga á fyrirtækinu.

Gagnaveitan tapaði 380 milljónum króna á síðasta ári, aðallega vegna gengismunar, enda eru tæpir sjö milljarðar króna af skuldum hennar í erlendri mynt. Tekjurnar eru hins vegar í íslenskum krónum.

Glitnir mat Gagnaveituna á sjö milljarða króna árið 2007. Séu sömu reiknireglur og Glitnir beitti þá notaðar nú er virði hennar í dag fimm milljarðar króna. Þá er virði tæps helmingshlutar um 2,4 milljarðar króna. Virði Gagnaveitunnar var hins vegar bókfært á 4,7 milljarða í hálfsársuppgjöri OR.

Í "Planinu", aðgerðaráætlun OR, er áætlað að eignasala skili 5,1 milljarði króna á árinu 2013, þar á meðal hluturinn í Gagnaveitunni. Sú sala á þó einungis að skila hluta heildarupphæðarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×