Viðskipti innlent

Þynntu út aðra hluthafa - fréttaskýring

Snúningur Eftir að Arion banki reyndi að leysa til sín hlut bræðranna Lýðs og Ágústar í Existu reyndu þeir að þynna út aðra hluthafa til að halda völdum í félaginu.fréttablaðið/gva
Snúningur Eftir að Arion banki reyndi að leysa til sín hlut bræðranna Lýðs og Ágústar í Existu reyndu þeir að þynna út aðra hluthafa til að halda völdum í félaginu.fréttablaðið/gva
Hvað er talið að Lýður Guðmundsson og Bjarnfreður Ólafsson hafi gert?

Ákæra á hendur Lýði Guðmundssyni, fyrrum aðaleiganda Existu, og Bjarnfreði Ólafssyni, eins eigenda Logos, snýst um snúning sem ráðist var í til að tryggja yfirráð yfir félaginu. Með honum ætluðu fyrrum aðaleigendur Existu, Lýður og bróðir hans Ágúst, að þynna út aðra hluthafa með því að borga tvo aura fyrir hverja nafnvirðiskrónu. Þetta telur sérstakur saksóknari varða við lög og geti varðað tveggja ára fangelsi.

Exista var skráð á hlutabréfamarkað fram að hluthafafundi sem haldinn var 30. október 2008. Samtals áttu aðrir aðilar en bræðurnir Lýður og Ágúst tæplega 55 prósenta hlut í Existu á þessum tíma. Kaupþing, sem var stærsta eign félagsins, var líka stærsti lánveitandi Bakkabraedur Holding B.V., hollensks félags sem hélt utan um eign bræðranna í Existu. Í ákærunni yfir Lýði og Bjarnfreði segir að „miðvikudaginn 3. desember 2008 sendi Nýi Kaupþing banki hf. [síðar Arion banki] félaginu og ákærða Lýði tölvupóst þar sem farið var fram á greiðslu inn á lán bankans til félagsins og/eða að settar yrðu frekari tryggingar. Skyldi það gert eigi síðar en 8. desember. Að öðrum kosti myndi bankinn leysa til sín hlutabréf í Exista hf., sem félagið […] hafði sett bankanum að veði".

Ljóst var að bræðrunum hugnaðist illa að missa tökin á Existu. Í stað þess að afhenda eignarhlut sinn, sem var rúmlega 45 prósent, til réttmætra kröfuhafa var ráðist í 50 milljarða króna hlutafjáraukningu sem annað félag þeirra, BBR ehf., skráði sig að fullu fyrir. Eftir hana átti nýja félagið 77,91 prósent í Existu. Hluturinn sem Arion banki átti veð í var þynntur úr 45 prósentum í 10,4 prósent. Eign allra annarra eigenda rýrnaði með sama hætti.

Ekkert hefði verið hægt að gera við þessu ef bræðurnir hefðu raunverulega greitt 50 milljarða króna fyrir nýja hlutaféð. Það gerðu þeir hins vegar ekki. Þvert á móti var Bjarnfreður, lögmaður þeirra, fenginn til að skila inn tilkynningu um að einn milljarður króna hefði verið greiddur fyrir hið nýja hlutafé, eða tvö prósent af nafnvirði þess. Klárt er að það samrýmist ekki lögum um hlutafélög þar sem stendur að „greiðsla hluta má ekki nema minna virði en nafnvirði hans".

Í ákærunni kemur reyndar fram að milljarðurinn hafi í raun aldrei verið greiddur. Hann „stafaði frá Lýsingu hf., dótturfélagi Exista hf.[…]Féð var greitt inn á vörslureikning hjá lögfræðistofunni Logos þar sem innstæðan lá óhreyfð fram á sumarið 2009. Þessi milljarður króna rann því aldrei inn í rekstur Exista hf.".

Fyrirtækjaskrá úrskurðaði hlutafjáraukninguna ólögmæta þann 29. júní 2009, sjö mánuðum eftir að hún var tilkynnt. Henni hafði þá borist ábending um málið.

Í úrskurði Fyrirtækjaskráar kom fram að stofnunin teldi að gengið hefði verið út fyrir ystu mörk í formi og framsetningu við að fá aukninguna skráða. Formleg og efnisleg framsetning tilkynningarinnar hafi „á allan hátt vikið verulega frá því sem lög og venjur standa til[…]það ber einnig að undirstrika að umrædd tilkynning berst frá einni af stærri lögmannsstofum landsins [Logos] og með fylgir skýrsla endurskoðanda stórrar endurskoðandaskrifstofu [Deloitte], sem hefur allt yfirbragð vandaðrar sérfræðiskýrslu. Hugsanlega stafar tiltrú starfsmanna Fyrirtækjaskrár af þeirri ástæðu að fagaðilar á borð við þá sem hér eiga í hlut fari ætíð að réttum reglum".

thordur@frettabladid.is





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×