Viðskipti innlent

Geysisbændur í fjárfestingar

Eigendur meirihluta Geysissvæðisins í Haukadal ætla að ráðast í miklar framkvæmdir og fjárfestingar á svæðinu.

Á næstunni stendur til að efna til samkeppni um framtíðarskipulag svæðisins. Þeir hafa auk þess látið gera þjónustukannanir á svæðinu í sumar þar sem fram hefur komið að ferðamenn hafa verið undrandi á því að ekki skuli vera gjaldtaka þar. Starfsemin á að skapa sex til tíu heilsársstörf.

Stofnfundur Landeigendafélags Geysis ehf. var haldinn í gær. Að félaginu standa eigendur 65 prósenta hverasvæðisins í Haukadal sem ákváðu í fyrra að hefja undirbúning að því. Formaður stjórnar er Bjarni Karlsson, barnabarn Bjarna Sigurðssonar frá Geysi. Íslenska ríkið, sem á 35 prósent af landinu, er ekki á meðal eigenda félagsins.

Í minnisblaði sem landeigendurnir, að undanskildu íslenska ríkinu, sendu Drífu Kristjánsdóttur, oddvita Bláskógabyggðar, í lok maí, segir að ljóst sé að hverasvæðið við Geysi í Haukadal hafi látið á sjá í áranna rás. Megintilgangurinn verði að vernda og skipuleggja svæðið með tilliti til „þeirrar miklu aukningar ferðamanna sem koma til landsins allt árið. Nýlegar rannsóknir sýna að 75 prósent erlendra ferðamanna sem koma til Íslands heimsækja svæðið. Skipuleg uppbygging getur því ekki beðið lengur." Því hafi þeir ákveðið að stofna félag um hverasvæðið sem sjái um verndun, uppbyggingu, framkvæmdir og rekstur á svæðinu. Ljóst sé „að um mikla fjárfestingu er að ræða auk viðhalds á komandi áratugum".

Garðar Eiríksson, talsmaður landeigendafélagsins, segir að formanni og varaformanni stjórnar þess hafi verið falið að stíga fyrstu skref í þessa átt fyrir næsta stjórnarfund. „Næsta skref verður síðan að fara í viðræður við ríkið um samstarfssamning vegna þess að þarna þarf uppbyggingu sökum fjölgunar ferðamanna. Ágangurinn er orðinn það mikill, enda heimsækir um hálf milljón manns svæðið árlega."

Spurður hvort til standi að hefja gjaldtöku inn á Geysissvæðið til að standa undir kostnaði við fyrirhugaðar framkvæmdir segir Garðar það verkefni stjórnar félagsins að taka ákvörðun um það þegar fram í sækir. „Við höfum gert þjónustukannanir á svæðinu í sumar. Það má orða það þannig að margur ferðamaðurinn er undrandi yfir því að það skuli ekki vera gjaldtaka á ferðamannasvæðum á Íslandi yfirhöfuð."- þsj / sjá síðu 10





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×