Viðskipti innlent

Tekjur ríkisins meiri en ráð var fyrir gert

Einstaklingar greiddu 4,2 milljörðum króna meira í tekjuskatt á fyrstu sex mánuðum ársins en áætlað hafði verið og lögaðilar 8,4 milljörðum króna meira.
fréttablaðið/anton
Einstaklingar greiddu 4,2 milljörðum króna meira í tekjuskatt á fyrstu sex mánuðum ársins en áætlað hafði verið og lögaðilar 8,4 milljörðum króna meira. fréttablaðið/anton
Innheimtar tekjur ríkisins fyrstu sex mánuði ársins 2012 námu 251,9 milljörðum króna. Það er 23,2 milljörðum umfram áætlun. Á sama tíma hafa gjöld ríkisins dregist saman um 6,4 milljarða, voru 268,6 milljarðar til júníloka. Þetta kemur fram í mánaðaruppgjöri A-hluta ríkissjóðs fyrir júní 2012, sem kom út í gær.

Skatttekjur og tryggingargjöld á tímabilinu námu 229,3 milljörðum króna, eða 16,5 milljörðum umfram áætlun. Þá voru skattar og tekjur tíu milljarðar umfram áætlun, 86,2 milljarðar í heild. Þar af var tekjuskattur einstaklinga 4,2 milljörðum umfram áætlun og tekjuskattur lögaðila um 8,4 milljarða króna. Skattur á fjármagnstekjur reyndist hins vegar 1,5 milljörðum lægri en áætlað hafði verið.

Tekjur af sköttum á vöru og þjónustu voru 3,2 milljörðum umfram áætlun, og af virðisaukaskatti 2,1 milljarður króna. Þá voru aðrar tekjur alls 20,9 milljarðar króna, eða 5,5 milljarðar umfram áætlun. Þar af voru vaxtatekjur 7,9 milljarðar króna og arðgreiðslur frá Landsbanka Íslands og Seðlabanka Íslands 5,3 milljarðar króna. Tekjur af sölu eigna námu 1,2 milljörðum króna, eða einum milljarði umfram áætlun en það skýrist af hlutdeild ríkisins í hagnaði af gjaldeyrisútboðum Seðlabankans.

Gjöld ríkissjóðs námu 268,6 milljörðum króna til júníloka, eða 6,4 milljörðum undir áætlun innan ársins, en hún byggir á fjárlögum og fluttum fjárheimildum frá fyrra ári.

Helstu frávikin voru hjá mennta- og menningarmálaráðuneytinu, eða 2,2 milljarðar króna, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, eða 1,4 milljarðar króna, og utanríkisráðuneytinu, um 1,1 milljarð króna.

Umframgjöld fjármálaráðuneytisins námu hins vegar 0,2 milljörðum króna, sem og innanríkisráðuneytisins. Þá var fjármagnskostnaður 0,2 milljörðum króna umfram áætlun.

Í uppgjörinu kemur fram að stór frávik á útkomu miðað við áætlun séu fátíð. „Helstu frávik þar sem gjöld reyndust umfram áætlun voru hjá Landspítala um 1,5 mja. kr. (einkum halli fyrri ára), lífeyrisskuldbindingar um 0,9 mja. kr. og Atvinnuleysistryggingasjóðs um 0,7 ma. kr.,“ segir í skýrslunni.kolbeinn@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×