Viðskipti innlent

Meðalverð bensíns hefur fylgt heimsmarkaðsverði

Mynd/Vísir.
neytendurMeðalverð á bensíni hefur lækkað frá því í vor og helst í takt við lækkun á heimsmarkaðsverði og lægri gengisvísitölu. Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) segir þetta jákvæða þróun. „Þetta sýnir að aðhald er til staðar og menn eru að fylgjast með þessu."

Runólfur segir eðlilegt að miða við þróun á heimsmarkaðsverði, líkt og gert sé í nágrannalöndunum.

„Það hafa stundum verið brögð að því að menn séu skjótir að hækka ef þetta er upp á við og þá eiga menn með sama hætti að vera skjótir niður ef það verða lækkanir. Það er bara jákvætt ef markaðurinn er að laga sig að þessu."

Samkvæmt upplýsingum frá FÍB var meðalverð á bensíni í apríl 266,90 krónur, en 244,40 í júlí. Það kemur heim og saman við heimsmarkaðsverð, en samkvæmt útreikningum FÍB var meðalverð á lítra á heimsmarkaði 111,70 krónur í apríl en var komið niður í 94,40 krónur í júlí. Meðalálagning á hvern lítra hefur einnig farið lækkandi, úr 36,30 krónum í apríl í 35,80 krónur í júlí.

Runólfur segir að í þessum útreikningum FÍB sé tekið tillit til gengisbreytinga, en gengisvísitalan hefur lækkað stöðugt síðan í vor. Hún var 228,7 stig þann 4. apríl, en 208,5 stig í gær.

Nokkur samdráttur hefur verið í bensínsölu á milli ára, að mati Runólfs. „Annars vegar hugar fólk betur að því hvaða leiðir það fer og hins vegar er bílasala meira í áttina að eyðslugrennri bílum."

Özur Lárusson, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins, staðfestir það. Fólk kaupi frekar sparneytna bíla, ekki síst þegar eldsneytisverð sé hátt, en einnig sé bílasala almennt að aukast, sem skili sér í minni eldsneytisþörf.

„Það verður að taka inn í myndina að nýir bílar eyða umtalsvert minna en gamlir. Nýr bíll er um tuttugu prósentum sparneytnari en fjögurra ára gamlir bílar af sömu gerð."

Özur segir bílasölu hafa aukist jafnt og þétt allt árið og miðað við síðustu mánaðamót sé fimmtíu prósenta aukning á milli ára. Helmingurinn af því fari til bílaleiga, en engu að síður sé um aukningu að ræða. Bílaflotinn sé þó enn allt of gamall. - kóp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×