Viðskipti innlent

Mál Roberts Tchenguiz fellt niður

Robert Tchenguiz
Robert Tchenguiz
Dómstólar hafa ákveðið að mál bresku efnahagsbrotalögreglunnar SFO gegn íranska kaupsýslumanninum Robert Tchenguiz skuli fellt niður.

Skammt er síðan rannsóknin sem beindist að bróður hans, Vincent Tchenguiz, var felld niður hjá SFO, og það sama gildir um rannsóknir á Ármanni Þorvaldssyni og Guðna Níels Aðalsteinssyni, fyrrverandi starfsmönnum Kaupþings.

Greint var frá þessu á vef viðskiptablaðsins Financial Times í gær. Rannsóknin beindist einna helst að viðskiptum Roberts við Kaupþing.

Fram kemur í upplýsingum frá dómstólnum að gögnin sem lágu til grundvallar húsleitum hjá bræðrunum og handtökum þeirra í fyrra hafi ekki réttlætt aðgerðirnar.

Aðgerðirnar voru gríðarlega umfangsmiklar. Yfir hundrað manns tóku þátt í þeim og níu voru handteknir, sjö í Bretlandi og tveir á Íslandi.

Enn hafa ekki borist fréttir af því að rannsóknin á þætti Sigurðar Einarssonar, fyrrverandi stjórnarformanns Kaupþingssamstæðunnar, í viðskiptunum hafi verið látin niður falla.

Vincent hefur boðað að hann hyggist höfða risavaxið skaðabótamál vegna rannsóknarinnar, og muni krefjast hundrað milljóna punda í bætur, jafnvirði um tuttugu milljarða króna.- sh






Fleiri fréttir

Sjá meira


×