Viðskipti innlent

Huang vill enn reisa hótel í Reykjavík

Huang Nubo
Huang Nubo
Kínverski fjárfestirinn Huang Nubo stefnir enn að því að reisa 300 herbergja lúxushótel í Reykjavík.

Huang lýsti yfir áhuga á slíkri framkvæmd á síðasta ári þegar hann kynnti hugmyndir sínar um uppbyggingu ferðaþjónustu á Grímsstöðum á Fjöllum.

Að sögn talsmanns Huangs vill hann þó ganga frá samningum um uppbyggingu á Grímsstöðum fyrst.

„Þetta stendur vissulega enn til. Það hefur hins vegar alltaf verið ætlunin að láta fyrst á það reyna hvort vilji sé til samstarfs hér á landi um uppbyggingu á Grímsstöðum. Um leið og fæst botn í það mál höfum við umboð til þess að fara að skoða hitt," segir Halldór Jóhannsson, landslagsarkitekt og talsmaður Huangs Nubo á Íslandi, og bætir við að hótelverkefnið í Reykjavík þurfi þó ekki endilega að taka lengri tíma en uppbyggingin á Grímsstöðum.

Greint var frá því í síðustu viku að samningaviðræður Zhongkun, fjárfestingarfélags Huangs Nubo, og GÁF ehf., félags í eigu sex sveitarfélaga á Norðausturlandi, um kaup og leigu á Grímsstöðum á Fjöllum væru á lokametrunum.

Áður en undirbúningur framkvæmda getur þó hafist á Grímsstöðum þarf Zhongkun einnig að klára ívilnunarsamning við iðnaðarráðuneytið.

Þá þarf GÁF að semja við ákveðna landeigendur Grímsstaða um skiptingu á jörðinni.

- mþl






Fleiri fréttir

Sjá meira


×