Viðskipti innlent

Thor Data Center tapaði 180 milljónum

Thor Data Center Gagnaver fyrirtækisins er í Hafnarfirði.FRÉTTABLAÐIÐ/VILHELM
Thor Data Center Gagnaver fyrirtækisins er í Hafnarfirði.FRÉTTABLAÐIÐ/VILHELM
Thor Data Center, sem á og rekur gagnaver í Hafnarfirði, tapaði 180,2 milljónum króna í fyrra. Það er heldur meira en fyrirtækið tapaði á árinu 2010 þegar tapið nam 145,9 milljónum. Þetta kemur fram í ársreikningi Thor Data Center sem skilað var inn til ársreikningaskráar í lok maí síðastliðins.

Thor Data Center var stofnað árið 2009 með það fyrir augum að koma á fót gagnaveri sem nýtir ódýra græna orku sem er í senn hagkvæm og mengar ekki. Sumarið 2010 voru fyrirtækinu lagðar til 400 milljónir króna í nýtt hlutafé. Á meðal þeirra sem tóku þátt í aukningunni var Fjárfestingafélagið Títan, í eigu Skúla Mogensen, sem eignaðist 33 prósenta hlut.

Í nóvember 2011 var allt hlutafé í Thor Data Center selt til Advania. Kaupverðið fékkst ekki uppgefið. Í janúar 2012 keypti Títan síðan 5,17 prósenta hlut í Advania á um 140 milljónir króna og var þar með orðið óbeinn eigandi að Thor Data Center á ný.

Í byrjun júní var tilkynnt að Thor Data Center hefði fengið vilyrði fyrir tvöföldun á núverandi lóð fyrirtækisins og að eftir tvöföldunina verði gagnaverið tæplega sex þúsund fermetrar að stærð. Jafnframt hefur Advania fengið vilyrði fyrir 30 þúsund fermetra lóð skammt frá þar sem framtíðaráform eru um að reisa annað gagnaver, allt að 20 þúsund fermetra að stærð með 10 metra lofthæð. - þsj






Fleiri fréttir

Sjá meira


×