Innlent

Fjórir í stærðfræði með ágætiseinkunn

Trausti Sæmundsson, Eiríkur Þór Ágústsson og Hjörtur Björnsson standa við planið þar sem Féló var áður. Á myndina vantar Ögmund Eiríksson en hann fékk einnig ágætiseinkunn.
Trausti Sæmundsson, Eiríkur Þór Ágústsson og Hjörtur Björnsson standa við planið þar sem Féló var áður. Á myndina vantar Ögmund Eiríksson en hann fékk einnig ágætiseinkunn. Fréttablaðið/anton
Fjórir stærðfræðinemar brautskráðust úr grunnnámi með yfir níu í meðaleinkunn frá Háskóla Íslands fyrir viku. Stærðfræði er nytsamleg, segir einn þessara nema, hún er notuð í hvert skipti sem lesa þarf úr talnagögnum.

Fjórir af þeim tíu stærðfræðinemum, sem brautskráðust úr grunnámi frá Háskóla Íslands í síðustu viku, hlutu ágætiseinkunn. 1.238 nemendur brautskráðust úr grunnámi við skólann og þar af voru 26 með ágætiseinkunn. Það er hæsta einkunn sem hægt er að fá við skólann en hana fá þeir sem eru með níu eða hærra í meðaleinkunn.

Trausti Sæmundsson er einn þeirra fjögurra nemenda sem brautskráðust með ágætiseinkunn úr stærðfræði. Hann segir uppskriftina að árangrinum einfalda.

„Maður þarf að hafa áhuga á stærðfræði og vera þrjóskur,“ segir Trausti.

Hann segir námið hafa verið ákaflega krefjandi.

„Ég þurfti að skila mörgum heimaverkefnum í hverri viku og í hverju fagi og ég var í fjórum til fimm fögum á hverri önn.

Það voru ein skil nánast daglega og daginn áður en ég átti að skila var ég langt fram á nótt að reyna að klára verkefnin því þau voru virkilega erfið.“

Hjörtur Björnsson var samnemandi Trausta og brautskráðist einnig með ágætiseinkunn. Hann segir stærðfræðina nytsamlega.

„Ég held að tölfræði sé með praktískasta námi sem til er. Hún er notuð í hvert einasta skipti sem einhver þarf að lesa út úr gögnum sem notuð eru til rannsókna.

Svo er þetta líka að stærstum hluta hjálparfag við aðrar greinar. Eðlis- og efnafræðingar þurfa til dæmis stöðugt að vera að reikna.“

Strákarnir eru sammála um að samvinnan hafi gert gæfumuninn til að koma þeim í gegnum námið.

„Ég, Hjörtur, Ögmundur og fleiri lærðum bara sleitulaust saman í þrjú ár. Alltaf eftir skóla hittumst við í Féló.“

Trausti útskýrir að Féló hafi verið lítið hús fyrir utan skólann, en þar hafi nemendur haft aðstöðu til hittast og læra saman.

„Féló var okkar griðastaður þar sem við lærðum, drukkum kaffi, skrifuðum upp á töflu og hugsuðum dæmi. Þar gátum við komist í gegnum þetta nám.“

Bæði Trausti og Hjörtur vinna í sumar hjá háskólanum. Hjörtur er að vinna við stærðfræðivef ætlaðan menntaskólanemum sem mun innihalda bæði spurningar og fyrirlestra.

Trausti vinnur hins vegar að forriti sem púslar saman bútum úr DNA-streng.

Þeir stefna báðir á frekara nám.

katrin@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×