Viðskipti innlent

Steingrímur J. sneri við umdeildri ákvörðun forvera síns

Steingrímur J. Sigfússon
Steingrímur J. Sigfússon
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefur auglýst og úthlutað tollkvótum vegna innflutnings á kjötvörum, smjöri og ostum fyrir tímabilið júlí 2012 til júní 2013. Þá úthlutaði ráðuneytið í fyrsta skipti tollkvótum vegna innflutnings á kinda- og geitakjöti.

„Það hvort ætti að úthluta tollkvótunum hefur yfirleitt verið viðkvæmt mál í ráðuneytinu. Fyrst um sinn var reyndar lítil eftirspurn eftir kvótunum og sérstaklega með tilliti til lambakjöts enda ekki verið vöntun á lambakjöti hér á landi,“ segir Ólafur Friðriksson, skrifstofustjóri framleiðslu- og markaðsskrifstofu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins, og heldur áfram: „En það var ákvörðun núverandi ráðherra að þetta væri þjóðréttarleg skuldbinding Íslands og því bæri að úthluta kvótanum jafnvel þó eftirspurn væri ekki mikil eins og raunar kom á daginn með lambakjötið.“

Við úthlutunina nú sneri Steingrímur J. Sigfússon landbúnaðarráðherra við breytingum sem Jón Bjarnason, forveri Steingríms, gerði á fyrirkomulagi úthlutunarinnar.

Tollkvótarnir sem um ræðir byggja á aðild Íslands að GATT-samningnum svokallaða, á vegum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar sem Ísland gerðist aðili að árið 1995. Með aðildinni skuldbatt Ísland sig til að hleypa litlu magni búvara inn á innlendan markað með lægri tollum en almennt tíðkast til að auka samkeppni á búvörumarkaði og stuðla þannig að lægra verði fyrir neytendur.

Fyrirkomulagi þessara lægri tolla var hins vegar breytt árið 2009 af Jóni. Frá 1995 höfðu þetta verið magntollar þar sem föst krónutala var lögð á hvert kíló af innfluttu kjöti en Jón breytti þeim í verðtolla. Við breytinguna hækkuðu tollarnir svo mikið að í mörgum tilfellum varð dýrara að flytja inn vörur á undanþágunni en vörur sem lagðir eru á almennir tollar. Nú hefur Steingrímur hins vegar snúið þessari ákvörðun við.

Áður hafði umboðsmaður Alþingis gert athugasemd við heimild ráðherra til þess að breyta tollunum. Var í kjölfarið skipaður starfshópur um málið en að vinnu hans lokinni lagði Steingrímur fram frumvarp á þingi um breytingar á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum.

Í frumvarpinu er lagt til að ráðherra verði framvegis skylt að úthluta tollkvótunum þegar sýnt þyki að ekki sé nægjanlegt framboð af viðkomandi vöru á innanlandsmarkaði. Í gildandi lögum er kveðið á um heimild ráðherra til þessa. Þá eru skilgreind skýr viðmið sem ráðherra ber að fara eftir þegar hann metur hvort framboð hér sé nægjanlegt. Frumvarp Steingríms náði þó ekki fram að ganga á því þingi sem er nýlokið.

magnusl@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×