Viðskipti innlent

Verð á umbúðapappír hækkar um 43 prósent

Sjávarútvegsfyrirtækin eru einir stærstu viðskiptavinir Odda og Samhentra í kaupum á pappírsumbúðum.
Sjávarútvegsfyrirtækin eru einir stærstu viðskiptavinir Odda og Samhentra í kaupum á pappírsumbúðum. Fréttablaðið/Valli
Heimsmarkaðsverð á pappír sem notaður er í umbúðir hefur hækkað um rúm 43 prósent á síðustu þremur árum. Árið 2009 kostaði tonnið af bylgjupappír, sem notaður er í flestar gerðir pappakassa, um 440 evrur en hefur nú hækkað upp í 630 evrur.

Pappír sem notaður er í smærri tegundir umbúða, eins og undir morgunkorn, kökur og sjávarafurðir, hefur hækkað að sama skapi. Verð á skrifstofupappír hefur hins vegar lækkað lítillega síðan í fyrra, þegar það náði hámarki.

Guðlaug Jónsdóttir, innkaupafulltrúi Odda, segir eftirspurnina eftir umbúðapappír síst fara minnkandi, þrátt fyrir hækkandi verð. „Umbúðir eru orðnar svo mikill partur af vörum," segir hún. „Þetta skilar sér svo að sjálfsögðu út í verðlagið hér."

Oddi kaupir mestmegnis pappír frá Skandinavíu og Þýskalandi. Guðlaug segir óskandi að geta verslað við Bandaríkin og Kanada, en innanlandsflutningur í þeim löndum sé svo kostnaðarsamur að það borgi sig ekki.

Jóhann Oddgeirsson, framkvæmdastjóri Samhentra umbúðarlausna, segir verð á plasti hafa hækkað að sama skapi. „Hér áður fyrr voru meiri sveiflur þar sem pappírinn fór upp ákveðna árstíð og niður aðra," segir hann. „Þetta hefur verið bara ein leið upp á við núna."- sv






Fleiri fréttir

Sjá meira


×