Viðskipti innlent

Ríkið fær 1,8 milljarða í arð frá Landsvirkjun

Ragna Árnadóttir aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar og Hörður Arnarson forstjóri á ársfundi fyrirtækisins á fimmtudag.
Ragna Árnadóttir aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar og Hörður Arnarson forstjóri á ársfundi fyrirtækisins á fimmtudag. Fréttablaðið/Vilhelm
Rekstrarhagnaður Landsvirkjunar jókst talsvert árið 2011. Fjármálastjóri fyrirtækisins segir skuldastöðu þess viðráðanlega með þeim fyrirvara þó að lokist erlendir fjármagnsmarkaðir gæti hið opinbera þurft að styrkja eigið fé félagsins.

Rekstur Landsvirkjunar batnaði nokkuð á árinu 2011. Rekstrarhagnaður jókst talsvert en skuldsetning fyrirtækisins er enn mikil eftir fjárfestingar síðasta áratugar. Landsvirkjun kynnti ársreikning sinn fyrir síðasta ár á ársfundi félagsins á fimmtudag.

Þrátt fyrir bætta rekstrarniðurstöðu minnkaði hagnaður Landsvirkjunar talsvert á milli ára. Var hagnaður ársins 26,5 milljónir Bandaríkjadala, jafngildi 3,4 milljarða króna, samanborið við 72,9 milljóna dala hagnað árið 2010. Munurinn skýrist af óhagstæðri gengisþróun sem breytti talsvert bókfærðu virði raforkusölusamninga fyrirtækisins.

Vegna afkomu ársins mælir stjórn Landsvirkjunar með því að 14 milljónir dala, eða 1,8 milljarðar króna, verði greiddar í arð til ríkissjóðs. Fjögur ár eru liðin frá síðustu arðgreiðslu fyrirtækisins sem var 7,8 milljónir dala.

Eins og áður sagði batnaði rekstrarniðurstaða Landsvirkjunar mikið í fyrra.

Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA) nam 354 milljónum Bandaríkjadala, jafngildi 45 milljarða króna á núverandi gengi. Hækkaði EBITDA því um 16 prósent á milli ára.

Skýrist hækkunin af því að rekstrartekjur hækkuðu verulega umfram rekstrargjöld og hafa tekjurnar aldrei verið hærri í sögu Landsvirkjunar. Rekstrartekjur voru alls 436 milljónir dala sem jafngildir 55,4 milljörðum króna. Til samanburðar voru rekstrartekjur 378 milljónir dala árið 2010 og hafa hæst farið áður í 397 milljónir dala árið 2008.

Helstu áhættuþættir í rekstri Landsvirkjunar eru sem fyrr þróun álverðs, vaxta og gengis gjaldmiðla. Þannig kom fram í máli Rafnars Lárussonar, framkvæmdastjóra fjármálasviðs Landsvirkjunar, á ársfundi að þróun álverðs frá áramótum benti til þess að tekjur fyrirtækisins yrðu lægri á þessu ári en því síðasta.

Þá gerði Rafnar skuldastöðu fyrirtækisins að umtalsefni. Vaxtaberandi lán voru alls 2,7 milljarðar dala í lok síðasta árs og var meðallíftími lánasafnsins 7,6 ár. Er Landsvirkjun umtalsvert skuldsettari en sambærileg fyrirtæki í nágrannalöndum Íslands.

Síðustu þrjú ár hefur handbært fé frá rekstri Landsvirkjunar dugað til að standa undir endurgreiðslum lána. Þá sagði Rafnar það sama gilda um fyrirsjáanlegar endurgreiðslur verði ekki ráðist í stórar fjárfestingar. Hann rak þó þann varnagla að Landsvirkjun væri háð aðgengi að langtímafjármagni á mörkuðum. Yrðu aðstæður á lánamörkuðum þannig að fyrirtækið gæti ekki sótt sér langtímafjármagn á viðunandi kjörum þyrfti að skoða þörfina á því að styrkja eigið fé félagsins. Slík innspýting kæmi þá frá íslenska ríkinu.magnusl@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×