Viðskipti innlent

Skuldsett heimili dýpka og lengja kreppur

AGS segir aðgerðir til að draga úr skuldsetningu heimila hafa stutt við efnahagsbata hér.
AGS segir aðgerðir til að draga úr skuldsetningu heimila hafa stutt við efnahagsbata hér. Fréttablaðið/HAG
Kreppur verða langvinnari og dýpri eftir því sem heimili eru skuldsettari í aðdraganda þeirra. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) um skuldir heimila. Bornar eru saman skuldakreppur og fall eignaverðs víða um lönd á ólíkum tímum.

Í skýrslu AGS kemur fram að endurfjármögnun banka í fjármálakreppu sé lykilatriði í glímunni við skuldavanda heimila. Í þeim samanburði komi Ísland vel út, til dæmis miðað við Kólumbíu árið 1999 og Ungverjaland í dag.

„AGS klappar íslenskum stjórnvöldum lof í lófa fyrir að hafa brugðist við vanda heimilanna í kjölfar hrunsins með víðtækum almennum aðgerðum sem miðuðust við að draga úr skuldsetningu þeirra og koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot og algjört verðhrun á fasteignamarkaði,“ segir í umfjöllun Greiningar Íslandsbanka.

Þó er í skýrslunni bent á að dýpra hafi verið á hvata heimila til að taka með samræmdum hætti þátt í áætlun um endurskipulagningu skuldavandans og afskriftaþörfin hafi aukist eftir því sem lengur var beðið. „Þá segir í skýrslu AGS að skilyrðislaus frestur nauðungarsölu og frysting lána hafi dregið úr hvatanum til að hraða lausn mála og tíðar breytingar á ramma endurskipulagningar skuldavandans hafi ýtt undir væntingar um enn rausnarlegri úrræði,“ segir á vef stjórnarráðsins.- óká






Fleiri fréttir

Sjá meira


×