Viðskipti innlent

Telja litlar líkur á að krónan styrkist

Þangað til WOW Air flytur í nýtt húsnæði í Höfðatúni 12 í maíbyrjun heldur félagið til í bráðabirgðahúsnæði í Grímsbæ við Bústaðaveg. Fréttablaðið/HAG
Þangað til WOW Air flytur í nýtt húsnæði í Höfðatúni 12 í maíbyrjun heldur félagið til í bráðabirgðahúsnæði í Grímsbæ við Bústaðaveg. Fréttablaðið/HAG
„Við sjáum að markaðurinn er að stækka og þar með kakan sem er til skiptanna," segir Baldur Oddur Baldursson, forstjóri WOW Air, um möguleika félagsins til að marka sér sess í millilandaflugi.

Baldur vísar til þess að í fyrra hafi aukning ferðamanna til landsins numið 18 prósentum, en þá sóttu landið heim tæplega 600 þúsund ferðamenn. „Í ár er svo spáð í kring um 15 prósenta aukningu," segir hann, en bætir um leið við að með samstilltu átaki hagsmunaaðila ætti að vera hægt að ná tölu ferðamanna upp í milljón. „Við förum af stað með tvær vélar og teljum að kakan eigi eftir að stækka það mikið að pláss sé fyrir fleiri á markaðnum."

Baldur segir að þótt hrun krónunnar hafi haft slæm áhrif á íslenskt hagkerfi þá hafi það gert landið að ákjósanlegri áfangastað fyrir ferðamenn. „Ísland var náttúrulega ákaflega dýrt fyrir hrun. Svo sjáum við ekki fyrir að gjaldeyrishöftum verði lyft í bráð eða að krónan styrkist verulega á næstu árum." Þetta segir Baldur ýta undir að Ísland haldi áfram að styrkjast sem áfangastaður erlendra ferðamanna. „Síðan teljum við líka að íslenska hagkerfið sé að styrkjast og Íslendingar fari í auknum mæli að ferðast á ný."

Nú þegar er mjög mikil samkeppni í millilandaflugi frá Íslandi og nefnir Baldur í þeim efnum félög á borð við Lauda Air, Kon-Tiki, Air Berlin, German Wings og Lufthansa. Og eru þá ónefnd íslensku félögin Icelandair og Iceland Express, auk flugfélaga á borð við EasyJet og Delta Airlines. „Tilkoma okkar með tvær vélar er mjög lítil aukning í prósentum," segir Baldur.

WOW Air er lággjaldaflugfélag, en Baldur segir að auk þess að bjóða hagkvæmar ferðir ætli félagið að laða til sín viðskiptavini með nýrri nálgun. Áður fyrr hafi fólki þótt gaman að fara í flug, en auknar öryggiskröfur eftir árásirnar í Bandaríkjunum 2001 hafi kannski dregið úr þeirri gleði. „Við stefnum á að gera flugið aftur skemmtilegt. Og það teljum við að hægt sé að gera með viðmótinu," segir hann og kveður hlutina verða gerða með bros á vör hjá WOW Air. „Við færum gleðina aftur í flugið án þess að slaka á nauðsynlegum öryggiskröfum."

Fyrsta flug félagsins verður frá París til Keflavíkur 1. júní næstkomandi og svo eftir áætlun. Yfir sumarið eru áfangastaðir félagsins 13, en á veturna verður áætlunarflug til Lundúna, Kaupmannahafnar og Berlínar. Síðan verður boðið upp á sérstakar ferðir tengdar fríum og hátíðum.

olikr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×