Viðskipti innlent

Íslenskum krónum verður hleypt út á endanum

Þórður Snær Júlíusson skrifar
Már Guðmundsson segir að Seðlabankanum hafi fundist þessar krónur eiga að lúta sömu reglum og aflandskrónur.
Már Guðmundsson segir að Seðlabankanum hafi fundist þessar krónur eiga að lúta sömu reglum og aflandskrónur. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON BRINK
Greiðslur þrotabúa til erlendra kröfuhafa sinna í íslenskum krónum eru nú bundnar samþykki Seðlabanka Íslands. Breytingar á lögum um gjaldeyrismál, sem samþykkt voru á Alþingi 13. mars síðastliðinn, fela meðal annars í sér að undanþága vegna greiðslna á kröfum úr þrotabúi og greiðslu samningskrafna samkvæmt nauðasamningi í íslenskum krónum er felld úr gildi. Í tilkynningu frá Seðlabankanum segir að tilgangur breytinganna sé að veita Seðlabankanum „ákveðið varúðartæki“ til að koma í veg fyrir að útgreiðslur innlendra þrotabúa valdi óstöðugleika í greiðslujöfnuði eða grafi undan áætlun um losun gjaldeyrishafta.

Þessi þrenging hafði meðal annars áhrif á útgreiðslu slitastjórnar Glitnis til forgangskröfuhafa þrotabúsins sem fram fór þremur dögum eftir herðingu haftanna. Þá voru greiddir út 105,6 milljarðar króna í íslenskum krónum, evrum, Bandaríkjadölum, sterlingspundum og norskum kónum.

Vegna herðingar gjaldeyrishaftanna var sá hluti útgreiðslnanna sem eru í íslenskum krónum greiddur inn á geymslureikning á meðan beðið er heimildar Seðlabankans til að greiða þær út. Sú heimild hefur ekki fengist enn sem komið er. Már Guðmundsson seðlabankastjóri segir það þó ekki spurningu um hvort, heldur hvenær, slík heimild fáist.

„Þessu verður öllu hleypt út á einhverjum tímapunkti. Þetta er bara spurning um hvernig og hvenær. Krónur sem eru greiddar til til erlenda kröfuhafa bankans eru nákvæmlega sama eðlis og hinar svokölluðu aflandskrónur og okkur hefur fundist að þær eigi að lúta sömu reglum. Við erum að hleypa út krónum í gegnum gjaldeyrisútboðin og það er útboð 28. mars næstkomandi. Aðalatriðið er að þetta er nú í skipulegu ferli.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×