Viðskipti innlent

Krefst upplýsinga um stöðu Landsbankans

Slitastjórn bankans hefur neitað Vilhjálmi um gögnin en hann hefur nú farið með málið fyrir dóm.
Slitastjórn bankans hefur neitað Vilhjálmi um gögnin en hann hefur nú farið með málið fyrir dóm. Fréttablaðið/gva
Fjárfestirinn Vilhjálmur Bjarnason hefur höfðað mál gegn gamla Landsbankanum til að fá afhent gögn um eign bankans í sjálfum sér og lán til tengdra aðila. Hyggur á skaðabótamál gegn stjórnendum bankans og Björgólfsfeðgum.

„Ég vil fá upplýsingar um bréf sem Landsbankinn átti í sjálfum sér, hafði að veði og lánveitingar til þessara félaga," segir Vilhjálmur Bjarnason, lektor og fjárfestir, sem hefur höfðað mál á hendur slitastjórn Landsbankans og krefst þess að hún afhendi honum gögn um stöðu bankans fyrir og eftir hrun.

Beiðnin var lögð fyrir Héraðsdóm 31. janúar. Þar fer Vilhjálmur fram á upplýsingar um eign Landsbankans í sjálfum sér og fjölda bréfa í sjálfum sér sem lágu að veði fyrir lánum hans á þremur tilgreindum tímapunktum: 31. desember 2006, 31. desember 2007 og loks daginn sem Fjármálaeftirlitið tók bankann yfir, 7. október 2008.

Þá krefst Vilhjálmur sömuleiðis kröfulýsinga hins fallna banka í þrotabú Björgólfs Guðmundssonar og fjögurra félaga sem voru í hans eigu, Fjárfestingafélagsins Grettis, Samsonar, Samson Global Holding og Samson Properties.

„Að baki þessu býr að ef Landsbankinn hefur verið yfir mörkum um eign í eigin hlutabréfum þá er spurning hvort bankinn hefur verið starfhæfur," segir Vilhjálmur. Það geti bakað stjórnendum bankans skaðabótaskyldu gagnvart hluthöfum eins og honum sjálfum. Það sama eigi við ef í ljós komi að reglur um lán til tengdra aðila hafi verið þverbrotnar.

Fram kemur í beiðni Vilhjálms að hann hafi í tvígang sent slitastjórninni bréf vorið 2010 og óskað eftir þessum upplýsingum en hvorugu þeirra hafi verið svarað. Í því síðara hafi komið fram að hann hefði fullan hug á að láta reyna á rétt sinn gagnvart fyrrum stjórnendum bankans og aðaleigendunum, Björgólfi Guðmundssyni og syni hans Björgólfi Thor.

Málið verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur á föstudag.stigur@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×