Viðskipti innlent

Reyna enn að fá kyrrsetningu aflétt

Jón Ásgeir Jóhannesson
Jón Ásgeir Jóhannesson
Athafnamaðurinn Jón Ásgeir Jóhannesson og Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis, reyna enn að fá kyrrsetningu eigna sinna aflétt fyrir dómstólum. Málflutningur vegna þess fer fram í Hæstarétti í næstu viku.

Slitastjórn Glitnis fékk eignir þeirra kyrrsettar sumarið 2010 vegna sex milljarða skaðabótamáls sem kennt er við félagið Aurum Holdings. Pálmi Haraldsson, sem einnig er stefnt í Aurum-málinu, greiddi slitastjórninni hálfan milljarð til tryggingar til að forða eignum sínum, einkum Iceland Express, frá kyrrsetningu.

Héraðsdómur hefur þegar staðfest, gegn mótmælum tvímenninganna, að slitastjórnin hafi haft lögvarða kröfu í málinu og því hafi kyrrsetningin verið lögum samkvæm. Meðal þeirra eigna Jóns Ásgeirs sem voru kyrrsettar hér á landi voru jarðir og fasteignir að andvirði á annað hundrað milljóna, þrír bílar sem samtals voru metnir á tuttugu milljónir og tæplega þrjár milljónir á bankareikningum. Eitthvað af þessum eignum hefur runnið upp í kostnað vegna kyrrsetningarmálarekstrar í Bretlandi.

Meðal eigna Lárusar sem voru kyrrsettar er hús hans við Blönduhlíð í Reykjavík. - sh






Fleiri fréttir

Sjá meira


×