Viðskipti innlent

Skuldir Víkingaheima afskrifaðar að mestu

Safnið var opnað sumarið 2009. Það hýsir víkingaskipið Íslending, sem Reykjanesbær keypti sumarið 2002. Samanlagt skulduðu félögin tvö sem eiga og reka safnið rúmlega 600 milljónir króna í lok árs 2010. 
Fréttablaðið/Stefán
Safnið var opnað sumarið 2009. Það hýsir víkingaskipið Íslending, sem Reykjanesbær keypti sumarið 2002. Samanlagt skulduðu félögin tvö sem eiga og reka safnið rúmlega 600 milljónir króna í lok árs 2010. Fréttablaðið/Stefán
Skuldir tveggja félaga sem halda utan um Víkingaheima í Reykjanesbæ munu lækka um 60-70% samkvæmt uppgjörssamkomulagi þeirra við stærsta eiganda sinn, Reykjanesbæ, og lánardrottinn, Landsbankann. Félögin tvö, sem heita Íslendingur ehf. og Útlendingur ehf., skulduðu samtals um 620 milljónir króna í lok árs 2010.

Í uppgjörinu mun Reykjanesbær breyta rúmlega 100 milljóna króna skuld félaganna við sig í nýtt hlutafé og eignast við það 99% eignarhlut í Íslendingi, sem er móðurfélag Útlendings. Landsbankinn mun á móti lækka skuldir samstæðunnar um nokkur hundruð milljónir króna. Þetta kemur fram í ársreikningum Íslendings og Útlendings fyrir árið 2010 sem skilað var inn til ársreikningaskráar 30. desember síðastliðinn. Samkvæmt upplýsingum frá bankanum var SpKef sparisjóður upphaflega lánveitandi félaganna en skuldir þeirra færðust yfir til Landsbankans þegar hann tók yfir sjóðinn. Ekki er búið að ganga endanlega frá uppgjörssamkomulaginu.

Víkingaheimasafnið var opnað sumarið 2009. Það hýsir víkingaskipið Íslending, sem Reykjanesbær keypti árið 2002 af Gunnari Marel Eggertssyni, sem smíðaði skipið. Menntamálaráðuneytið styrkti á sínum tíma uppbyggingu safnsins um 120 milljónir króna auk þess sem ýmis fyrirtæki lögðu því til fé. Rekstur safnsins hefur verið í tveimur félögum: Íslendingi, sem sér um rekstur og á skipið sjálft, og Útlendingi, sem var stofnað utan um byggingu Víkingaheima. Íslendingur, sem á Útlending að öllu leyti, hefur verið í eigu Reykjanesbæjar (51%), Gunnars Marels (20%) og Olís (6%) auk þess sem félagið á 23% hlut í sjálfu sér.

Rekstur Víkingaheima hefur ekki gengið sem skyldi og samanlagt tap félaganna tveggja á árinu 2010 var tæpar 50 milljónir króna. Samanlagðar skuldir þeirra voru 619 milljónir króna og eigið fé samstæðunnar var neikvætt um 113,5 milljónir króna. Í ársreikningum félaganna kemur fram að þau hafi unnið að fjárhagslegri endurskipulagningu á árinu 2011. Þar segir að „allt bendi til þess að skuldir Útlendings ehf. í árslok 2011 verði lækkaðar um 60-70% og að Reykjanesbær muni skuldajafna kröfu sinni á félögin og breyta í hlutafé í Íslendingi ehf., að fjárhæð rúmar 100 milljónir króna og eignast þar með yfir 99% hlut í félaginu. Áætlað er að eignir samstæðu Íslendings ehf. muni í árslok 2012 nema 438 milljónum króna og að skuldir samstæðunnar eftir leiðréttingu og endurskipulagningu verði á sama tíma um 185 milljónir króna“.

Við þessa breytingu fer bókfærð eign Reykjanesbæjar í félögunum sem standa að Víkingaheimum úr því að vera neikvæð í það að vera jákvæð um rúmlega 250 milljónir króna.

thordur@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×