Viðskipti innlent

Jafnmargir símar seldir og árið 2007

Ætla má að mikil aukning í sölu snjallsíma valdi því að flutningur á gagnamagni aukist mikið á næstu misserum. Fréttablaðið/pjetur
Ætla má að mikil aukning í sölu snjallsíma valdi því að flutningur á gagnamagni aukist mikið á næstu misserum. Fréttablaðið/pjetur
Síminn seldi jafnmarga síma fyrir jólin og það gerði árið 2007. Þá var meðalverð seldra síma hjá fyrirtækinu tvöfalt hærra en fyrir fjórum árum. Endurspeglar sú staðreynd aukna markaðshlutdeild snjallsíma en 67 prósent seldra síma fyrir jólin voru snjallsímar.

„Við fáum ekki betur séð en að fólk hafi verið tilbúið að eyða meiri fjármunum í símana nú en þá,“ segir Margrét Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans, og bætir því við að hlutfall snjallsíma af seldum símum hafi tvöfaldast milli ára. Þá bendir Margrét á að næstsöluhæsti síminn hjá fyrirtækinu hafi verið Samsung Galaxy S II sem kosti tæplega 100 þúsund krónur.

Galaxy-síminn er keyrður á Android snjallsíma-stýrikerfinu sem Google stendur á bakvið. Sérstaka athygli vekur að símar sem notast við Android-stýrikerfið voru 56 prósent seldra síma fyrir jólin samanborið við 15 prósent fyrir ári.

Í fréttatilkynningu frá Símanum segir að lokum að þegar þessi mikli vöxtur í sölu á snjallsímum sé skoðaður í samhengi við netnotkun megi ætla að flutningur á gagnamagni aukist mikið á næstu misserum.

- mþl






Fleiri fréttir

Sjá meira


×