Viðskipti innlent

Vanskil hjá Félagsbústöðum stefna í rúmar 100 milljónir

Oft er valið á milli matar og húsaleigu hjá leigutökum, að sögn Sigurðar Kr. Friðrikssonar, framkvæmdastjóra Félagsbústaða.Fréttablaðið/gva
Oft er valið á milli matar og húsaleigu hjá leigutökum, að sögn Sigurðar Kr. Friðrikssonar, framkvæmdastjóra Félagsbústaða.Fréttablaðið/gva
Vanskil hjá Félagsbústöðum stefna í að verða yfir 100 milljónir í ár eða 4 prósent af veltunni. Húsaleigan hækkar ársfjórðungslega í samræmi við vísitölu til verðtryggingar en húsaleigubæturnar hafa verið óbreyttar frá miðju ári 2008, að sögn Sigurðar Kr. Friðrikssonar, framkvæmdastjóra Félagsbústaða.

Hann segir leigu á fjögurra herbergja íbúð hjá Félagsbústöðum hafa hækkað um 21,6 prósent frá því í október 2008. Greiðslubyrðin hafi hins vegar hækkað um 60 til 70 prósent vegna þess að bæturnar hafi ekki fylgt verðlagi.

Árið 2008 tvöfölduðust vanskilin frá árinu 2007 og fóru úr 0,7 prósentum af veltunni í 1,5 prósent. „Við þurftum að gjaldfæra 12 milljónir 2007. Þá var þetta komið í ótrúlega gott horf. Árið 2008 urðu vanskilin hins vegar tæpar 30 milljónir,“ segir Sigurður.

Árið 2009 voru vanskilin komin í 52 milljónir sem voru 2,1 prósent af veltunni og árið 2010 fóru vanskilin í 86 milljónir eða 3,6 prósent af veltunni.

Sigurður kveðst gera sér vonir um að greiðslubyrði leigutaka hjá Félagsbústöðum lækki þegar nýju bótakerfi verði komið á. „Það stendur fyrir dyrum að endurskoða bótakerfið. Hugmyndin er að færa á milli vaxtabóta og húsaleigubóta til þess að efla leigumarkaðinn þannig að fólk standi jafnt að vígi hvort sem það kaupir húsnæði eða leigi það. Ég vona að þetta verði komið til framkvæmda árið 2013 að loknum undirbúningi á næsta ári.“

Það er mat Sigurðar að skilin ættu að verða betri þegar bótunum hefur verið jafnað saman. „Fólk reynir auðvitað alltaf að borga leiguna. Það skiptir alla máli að hafa þak yfir höfuðið. Leigutakarnir hjá okkur eru með lágar tekjur og auðvitað höfðu þeir lítið á milli handanna árið 2007 þegar skilin voru betri. En minnkandi stuðningur vegur töluvert og kemur fram í vanskilum. Þegar fólk er svo orðið tvo til þrjá mánuði eftir á með leiguna er mjög erfitt að ná til baka.“

Sigurður segir þrautalendinguna vera að bera fólk út. „Allt er samt reynt í samvinnu við velferðarsvið borgarinnar til að ekki komi til þess. Oft er valið á milli matar og húsaleigu hjá leigjendum. Ef það sýnir sig hins vegar að fólk eigi að geta borgað leiguna getur það lent í því að fá ekki þann stuðning sem það biður um.“

Í ár hafa sjö verið bornir út með aðstoð sýslumanns vegna vangoldinnar leigu, að sögn Sigurðar. Hann segir það jafnframt koma fyrir að fólk fari sjálft þegar það er komið í mikil vanskil. „Við fáum bara lyklana,“ segir hann. Útburðum vegna húsreglnabrota hefur farið fækkandi og voru þeir fimm á þessu ári. Enginn þeirra var fyrir tilstuðlan sýslumanns. Félagsbústaðir eiga nú og reka um 2.150 íbúðir. Á biðlista eftir íbúð eru 714.

ibs@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×