Viðskipti innlent

Lægra raforkuverð seinkar áformum Landsvirkjunar

Offramboð á gasi í Bandaríkjunum og undanþágur frá kolefnisskatti innan Evrópusambandsins hafa valdið því að raforkuverð hefur staðið í stað eða lækkað. Það er þvert á stefnu Landsvirkjunar sem hyggur á hærra raforkuverð. Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir þetta geta tafið áætlanir fyrirtækisins um uppbyggingu.

„Já já, þetta getur alveg gert það. Efnahagssamdrátturinn í heiminum hefur einnig áhrif, þannig að þetta hægir alveg á okkur," segir Hörður. Hann segir það þó ekki alvarlegt og að allir þeir aðilar sem hafi verið í viðræðum við fyrirtækið séu það enn.

Ný tækni við vinnslu jarðgass í Bandaríkjunum hefur orsakað mikið framboð á gasi þar í landi og verðlækkun í kjölfarið.

Gunnar Tryggvason, formaður nefndar um mögulega lagningu sæstrengs, segir þetta geta hægt á þeirri þróun sem Landsvirkjun stefndi að varðandi verð. „Það getur gerst að orkufreki iðnaðurinn þurfi ekki lengur að flýja að heiman."

Ragnar Guðmundsson, forstjóri Norðuráls, segir Century Aluminium hafa opnað á ný verksmiðju í Bandaríkjunum sem lokað var árið 2009. Hann óttast að hátt orkuverð hér á landi fæli fyrirtæki frá.

Hörður segir hins vegar engan bilbug að finna á Landsvirkjun varðandi verðstefnuna. Viðmiðunarverðið er 43 dollarar á megavattsstund til 15 ára, með afslætti fyrstu 5 árin. Ekki verði horfið frá því, vegna stundarbreytinga ytra.

„Nei, ef menn hafa ekki kjark til að vera í viðskiptum þá eiga menn ekki að vera í viðskiptum." Landsvirkjun bjóði betra verð til lengri tíma, en verðlækkunin hafi vissulega áhrif.

„Þetta gerir þetta meira töff fyrir okkur, það er alveg öruggt. En lífið er þannig, það er ekki alltaf dans á rósum."

- kóp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×