Viðskipti innlent

Vilja að Fjármálaeftirlitið rannsaki starfsemi Lýsingar

Félag atvinnurekenda hefur farið fram á það við Fjármálaeftirlitið að það rannsaki starfshætti fjármögnunarfyrirtækisins Lýsingar. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem félagið sendi frá sér í dag. Félaginu hafa borist fjölmargar kvartanir vegna fjármögnunarleigusamninga. Félagið segir ljóst að Fjármálaeftirlitið hafi ekki gefið út að rannsókn sé hafin né heldur að hún standi til. Eftirlitið hafi þó gefið út að málið sé til skoðunar. Félag atvinnurekenda telur brýnt að háttsemi eftirlitsskyldra fjármálafyrirtækja sé rannsökuð og tryggt sé að starfshættir þeirra séu í samræmi við ákvæði laga.

Hér að neðan er yfirlýsing Félags

Til Félags atvinnurekenda hafa borist fjölmargar kvartanir um viðskiptahætti Lýsingar hf. í tengslum við fjármögnunarleigusamninga þeirra. Af þeim kvörtunum er ljóst að Lýsing hf. hefur neitað að viðurkenna endurkauparétt viðskiptavina sinna í lok samningstíma eða við sölu samningsandlagsins, þrátt fyrir um það hafi verið samið í upphafi og fyrir liggi löng framkvæmd fyrirtækisins í þá veru. Er sú háttsemi að mati Félags atvinnurekenda í andstöðu við 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki þar sem fram kemur að fjármálafyrirtæki beri að starfa í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur á fjármálamarkaði. Í því skyni að varpa ljósi á raunverulega framkvæmd fjármögnunarleigusamninga Lýsingar hf. sendi Félag atvinnurekenda þann 5. júní s.l. upplýsingabeiðni til Fjármálaeftirlitsins. Þar var meðal annars krafist tölulegra upplýsinga um fjölda fjármögnunarleigusamninga Lýsingar hf. á ákveðnu tímabili og hversu mörgum þeirra var lokið á grundvelli kaupréttar. Um er að ræða mikilvæg gögn sem aðeins eru á hendi fjármálafyrirtækisins. Fjármálaeftirlitið vísaði hinsvegar upplýsingakröfunni frá með þeim rökum að umbeðnar upplýsingar lægju ekki hjá stofnuninni. Liggja umræddar upplýsingar aðeins hjá fjármálafyrirtækinu og því nánast ótækt að sýna fram á almennt breytt viðhorf Lýsingar hf. þótt gögn bendi til þess í einstökum málum.

Félag atvinnurekenda óskaði einnig eftir því við Fjármálaeftirlitið að, á grundvelli eftirlitsskyldu sinnar, starfshættir Lýsingar hf. yrðu rannsakaðir. Um mjög alvarlegar athugasemdir er að ræða og því mikilvægt að Fjármálaeftirlitið sinni slíkri skyldu. Hinsvegar er ljóst að Fjármálaeftirlitið hefur ekki gefið út að rannsókn sé hafin né heldur að hún standi til. Eftirlitið hefur þó gefið út að málið sé til skoðunar. Félag atvinnurekenda telur brýnt að háttsemi eftirlitsskyldra fjármálafyrirtækja sé rannsökuð og tryggt sé að starfshættir þeirra séu í samræmi við ákvæði laga.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×