Viðskipti innlent

Kópavogsbær samþykkir framsal á lóðum Sunnuhlíðar

Magnús Halldórsson skrifar
Úr Kópavogi.
Úr Kópavogi.
Bæjarráð Kópavogsbæjar samþykkti í morgun framsal á fjórum lóðum Sunnuhlíðar á Kópavogstúni til verktakafyrirtækisins Jáverks. Hjúkrunarheimilið Sunnuhlíð ætlaði sér að byggja upp á lóðunum en fyrirhugaðar framkvæmdir komust í uppnám við efnahagshrunið.

Sjálfseignarstofnunin Sunnuhlíð, sem er hjúkrunarheimili fyrir aldraða í Kópavogi, hefur glímt við fjárhagsvanda allt frá efnahagshruninu haustið 2008, en þá komust uppbyggingaráform heimilisins á fjórum lóðum á Kópavogstúni í uppnám. Í lok árs 2011 námu skuldir Sunnuhlíðar vegna lóðakaupanna á Kópavogstúni ríflega 600 milljónum króna, og eru þær við Landsbankann. Unnið hefur verið að samkomulagi um uppgjör á skuldinni við bankann á þessu ári, að því er Jóhann Árnason, framkvæmdastjóri Sunnuhlíðar, upplýsti um samkomulagið í fréttum Stöðvar 2 á mánudag.

Það samkomulag gerir ráð fyrir að Sunnuhlíð losni alfarið undan skuldunum við Landsbankann, með því að framselja lóðirnar, sem Landsbankinn átt veð í, til verktakafyrirtækisins Jáverks, sem hyggst byggja upp sambærilega starfsemi og Sunnuhlíð ætlaði að byggja upp, á svæðinu.

Samkvæmt minnisblaði sem Pálmi Másson bæjarlögmaður og Ingólfur Arnarsson fjármálastjóri Kópavogs unnu fyrir bæjarstjórn um málið, kemur fram að Kópavogsbær þurfi að taka afstöðu til málsins, en til að raska ekki ákvörðunum um álögð gjöld, þá þurfi að byggjast upp sérhæfð notkun á lóðunum, sambærileg þeirri sem Sunnuhlíð ætlaði út í.

Bæjarstjórn vísaði erindinu um framsalið á lóðunum til bæjarráðs, sem samþykkti á tólfta tímanum í morgun að framselja lóðirnar til Jáverks, og bjarga þannig Sunnuhlíð frá fjárhagshremmingum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×