Viðskipti innlent

Árvakur tapaði 205 milljónum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Óskar Magnússon er forstjóri Árvakurs.
Óskar Magnússon er forstjóri Árvakurs.
Heildartap síðasta árs af rekstri Árvakurs, sem rekur Morgunblaðið og mbl.is, nam 205 milljónum króna, en nam 330 milljónum króna árið á undan. Rekstrarhagnaður (EBITDA) var 40,4 milljónir, en hann var neikvæður um 97,4 milljónir á árinu 2010. Heildartekjur síðasta árs voru um þrír milljarðar króna og jukust um 360 milljónir, eða 13,6% frá árinu á undan. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu vegna ársuppgjörsins.

Óskar Magnússon, forstóri Árvakurs, segir í tilkynningunni að fjárhagsleg endurskipulagning hafi farið fram að undanförnu og hlutafé í Þórsmörk hafi verið aukið verulega og sé nú 1221 milljón króna. Þeim fjármunum hafi verið varið til að mæta rekstrartapi Árvakurs og til þess að minnka skuldabyrði félagsins. Áhrif þessa koma ekki öll fram í ársreikningnum, sem nú er birtur, en í efnahagsreikningnum kemur fram að skuldir hafa minnkað um 944 milljónir króna og eignir um 920 milljónir.

„Sú endurskipulagning sem fram hefur farið byggist á breyttum forsendum frá því að félaginu var forðað frá gjaldþroti árið 2009, svo og á almennum ráðstöfunum sem Íslandsbanki stendur nú fyrir við endurskipulagningu fyrirtækja," segir Óskar Magnússon.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×