Viðskipti innlent

LSR vissu ekki að þeir væru að selja Bakkvarabræðrum hlutabréf

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Framkvæmdastjóri LSR segist ekki hafa vitað að hann væri að selja Bakkavarabræðrum hlutabréf sjóðsins í Bakkavör þegar tilboð barst frá þriðja aðila. Á sama tíma og Lýður Guðmundsson sætir ákæru sérstaks saksóknara eru hann og bróðir hans smám saman að ná yfirráðum yfir Bakkavör að nýju.

Bakkavarabræður eru smátt og smátt að ná yfirráðum yfir fyrirtækinu að nýju eftir að það fór í gegnum nauðasamninga og rann í faðm kröfuhafa.

Fréttablaðið í dag greindi frá því að eignarhlutur þeirra væri nú kominn í 40 prósent.

Það kann að vekja furðu einhverra en þrátt fyrir að Bakkavarabræður hafi misst eignarhluti í öllum helstu fyrirtækjum sínum fyrir hrunið hafa þeir enn fjárhagslegt bolmagn til að kaupa aðra hluthafa út úr Bakkavör. Það sem er merkilega er að bræðurnir eru að kaupa hlutabréf af lífeyrissjóðum en sjóðirnir eignuðust þessi bréf því bræðurnir gátu ekki staðið við skuldbindingar sínar.

En hvaðan koma peningarnir?

Félag bræðranna í Hollandi, sem var móðurfélag Exista, sem nú er farið á hausinn, fékk arðgreiðslur samtals upp á 9 milljarða króna á árunum 2005-2007. Þar kann skýringin að liggja. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis kom fram að það félag hefði verið á meðal þeirra aðila sem þáðu hæstar arðgreiðslur á uppgangsárunum fyrir hrun.

Aðrir sem hafa selt eru Þrotabú Glitnis, Íslandsbanki og minni lífeyrissjóðir.

Haukur Hafsteinsson, framkvæmdastjóri LSR, segir að LSR hafi ekki vitað að félag bræðranna hafi staðið á bak við kaupin. Hann segir að LSR hafi lagst gegn því á sínum tíma að bræðrunum væri gert kleift að eignast fjórðungshlut í Bakkavör með nýju hlutafé upp á fjóra milljarða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×