Viðskipti innlent

Mikil fjölgun íslenskra ferðamanna í Danmörku

Ferðum Íslendinga til Danmerkur fjölgaði um nærri fimmtung á síðasta ári ef mið er tekið af þeim fjölda gistinátta sem hagstofa Dana merkir Íslendingum. Í heildina fjölgaði gistinóttum í Danmörku um þrjá af hundraði.

Þetta kemur fram á vefsíðunni túristi.is. Þar segir að hlutfall íslenskra ferðamanna í landinu hefur því aukist á milli ára og var um eitt prósent á því síðasta. Þrátt fyrir þessa aukningu er langt í að metið frá árinu 2007 verði slegið því þá mældust gistinætur Íslendinga á danskri grundu rétt um hundrað og þrjú þúsund eða þrefalt fleiri en í fyrra.

Þær voru tæplega þrjátíu og átta þúsund næturnar sem Íslendingar gistu á dönskum hótelum, gistiheimilum, sumarhúsum og tjaldstæðum á síðasta ári. Af þeim voru rúmlega þrjátíu þúsund í höfuðborginni. Vinsældir Kaupmannahafnar þurfa ekki að koma á óvart því borgin er sá staður sem oftast er flogið til frá Íslandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×