Viðskipti innlent

Árstíðarsveiflan í ferðaþjónustunni nemur 8 milljörðum

Árstíðarsveiflan í ferðaþjónustunni er það sterk að hún skapar um 8 milljarða kr. sveiflu í ferðamannagjaldeyri. Um er að ræða þann tíma sem tekjurnar vegna erlendra ferðamanna hér á landi eru sem mestar í júlí og ágúst þar til útgjöld Íslendinga erlendis eru hvað mest í október og nóvember, en í þeim mánuðum eru útgjöld erlendra ferðamanna hér einnig nálægt lágmarki.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að Þannig sé kredit- og debetkortavelta erlendra aðila hér á landi yfir um 5 milljörðum kr. umfram sambærileg útgjöld Íslendinga erlendis á mánuði yfir háannatíma ferðaþjónustu, þ.e. júlí og ágúst.

Þetta snýst við í október og nóvember þegar Íslendingar halda erlendis í verslunarleiðangur og fjöldi ferðamanna hér á landi fer fækkandi. Þá eru útgjöld Íslendinga erlendis ríflega 3 milljörðum kr. meiri á mánuði en útgjöld erlendra aðila hér á landi.

Til samanburðar var afgangur af vöruskiptum að jafnaði 9,3 milljarðar kr. á mánuði í fyrra. Engum blöðum er því um að fletta að þessi sveifla í ferðamannagjaldeyri hefur veruleg áhrif á heildarflæði gjaldeyris vegna vöru- og þjónustuviðskipta eftir árstíma. Má í grófum dráttum segja að ferðmennskan bæti 50% innflæði ofan á vöruskiptaafganginn yfir sumarmánuðina en dragi u.þ.b. þriðjung frá honum í október og nóvember.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×