Viðskipti innlent

Tugir þúsunda lögðu leið sína í Kringluna

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Sigurjón Örn Þórsson segir að fyrsti dagur útsölunnar hafi gengið vel.
Sigurjón Örn Þórsson segir að fyrsti dagur útsölunnar hafi gengið vel. mynd/ valli.
Þetta hefur gengið mjög vel og mikil aðsókn verið, segir Sigurjón Örn Þórsson, framkvæmdastjóri Kringlunnar, um fyrsta útsöludaginn sem var í dag. Aðspurður segir Sigurjón að ekki sé óvarlegt að ætla að um 30 þúsund manns hafi komið í Kringluna í dag, en endanlegar tölur liggja þó ekki fyrir fyrr en á morgun.

Hann segir að fjöldi gesta Kringlunnar í dag sé líklegast ekki minni heldur en fyrir ári. „Þetta byrjaði strax í morgun með ágætis trukki. Svo var opið til níu í kvöld, sem er lengri tími en alla jafna," segir Sigurjón.

Þrátt fyrir að fjöldi gesta hafi lagt leið sína í Kringluna í dag, segist Sigurjón ekki geta sagt að kaupgeta Íslendinga hafi aukist. „Ég held að hún sé flöt lína ennþá - þó að einhverjar mælingar sýni aukna einkaneyslu," segir Sigurjón. Það virðist samt vera ljóst að kaupgetan sé ekki að minnka lengur.

Sigurjón segir að útsölurnar muni standa fram í febrúar og þeim verði lokið með svokölluðum götumarkaði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×