Íslandsbanki hagnaðist um 5,6 milljarða króna á fyrsta ársfjórðungi ársins. Til samanburðar var hagnaður bankans 3,6 milljarðar á sama ársfjórðungi síðasta árs en alls hagnaðist bankinn um 29,4 milljarða í fyrra.
Rekstrarniðurstaða bankans verður að teljast góð í ljósi helstu arðsemishlutfalla. Var arðsemi eigin fjár á ársfjórðungnum þannig 17,7 prósent og arðsemi eigin fjár af reglulegri starfsemi 15,1 prósent. Sömu hlutföll voru hvor tveggja 11,0 prósent á síðasta ári. Sérstaka athygli vekur að þóknanatekjur bankans jukust um 23 prósent miðað við sama fjórðung í fyrra en þóknanatekjur hafa verið hlutfallslega litlar hjá bönkunum frá bankahruni.
„Við fundum fyrir aukinni útlánaeftir-spurn á ársfjórðungnum. Sérstaklega sjáum við vöxt hjá Ergo, fjármögnunarþjónustu Íslandsbanka. Þetta gefur til kynna að fyrirtæki séu byrjuð að taka varfærin skref í fjárfestingum,“ segir Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka.
Íslandsbanki sameinaðist Byr sparisjóði á ársfjórðungnum og ber uppgjörið merki þess. Til að mynda hækkaði kostnaðarhlutfall bankans úr 56 prósentum á síðasta ári í 60,7 prósent á fjórðungnum en líklegt má telja að hlutfallið lækki á ný eftir því sem lengra líður frá sameiningunni.
Eiginfjárhlutfall bankans var í lok ársfjórðungsins 23,3 prósent sem er talsvert umfram 16 prósent lágmark Fjármálaeftirlitsins.- mþl

