Viðskipti innlent

Fréttaskýring: Hver er staðan á endurútreikningi gengistryggðra lána?

Meðal álitaefna sem dómstólar munu þurfa að skera úr um má nefna hvort gengislánadómur Hæstaréttar frá 15. febrúar nær til fyrirtækja.
Meðal álitaefna sem dómstólar munu þurfa að skera úr um má nefna hvort gengislánadómur Hæstaréttar frá 15. febrúar nær til fyrirtækja. Fréttablaðið/GVA
Vinnu samráðshóps lánastofnana og fulltrúa lántakenda um viðbrögð við gengislánadómi Hæstaréttar frá 15. febrúar er lokið. Dæma þarf í ellefu prófmálum, sem fá flýtimeðferð fyrir dómstólum, áður en endurútreikningar lána geta hafist.

Vonast er til þess að dómstólar skeri í haust úr um fordæmisgildi dóms Hæstaréttar frá 15. febrúar um gengistryggð lán. Lánastofnanir telja sig ekki geta lagst í endurútreikninga á slíkum lánum fyrr en skorið hefur verið úr um nokkur veigamikil álitamál. Þangað til verða óbreyttir greiðsluseðlar sendir út til skuldara en endurútreikningum vegna annarra gengislánadóma er lokið.

Þann 15. febrúar síðastliðinn komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að Frjálsa fjárfestingarbankanum hefði í ákveðnu máli verið óheimilt að krefjast hærri vaxtagreiðslna en sem nam samningsvöxtum af gengislánum aftur í tímann þar sem fullnaðarkvittun vegna afborgana lá fyrir.

Dómur Hæstaréttar féll í máli einstaklinga gegn fjármálastofnun og við nokkuð sértæka málavexti. Þá fólst í honum undantekning frá þeirri meginreglu kröfuréttar að kröfuhafi, sem fengið hefur minna greitt en hann átti rétt til, eigi kröfur á hendur skuldara um það sem er vangreitt. Síðan dómurinn féll hefur því verið nokkur óvissa um fordæmisgildi hans.

Í kjölfar dómsins var skipaður samráðshópur lánveitenda og fulltrúa lántakenda. Hlutverk hópsins var að hraða úrvinnslu skuldamála vegna gengislána. Í maí kynnti hópurinn samantekt á niðurstöðum vinnu sinnar.

Þar kom fram að leysa þyrfti úr 22 álitaefnum áður en hægt væri að hefja endurútreikning. Þar af voru fjögur talin vega þyngst: hvenær lántaki væri í skilum með lán, hvort dómurinn frá 15. febrúar tæki til lögaðila, hvenær bæri að reikna Seðlabankavexti og hvaða reikningsaðferð skyldi nota.

Í lok síðasta mánaðar kynnti samráðshópurinn svo þá niðurstöðu að ellefu prófmál yrðu höfðuð fyrir dómstólum til að fá niðurstöðu um téð álitaefni. Af þessum málum tengjast sex lánum einstaklinga og fimm lánum lögaðila.

Tvö málanna hafa þegar verið þingfest í héraðsdómi en hin málin níu verða þingfest eftir að réttarhléi dómstóla lýkur 31. ágúst. Samið hefur verið við héraðsdómstóla um að prófmálin fái flýtimeðferð og er vonast til þess að dómur verði fallinn í þeim öllum fyrir jól.

Þar að auki hefur verið rætt um að málin fái sams konar flýtimeðferð fyrir Hæstarétti. Gangi það eftir gæti endanleg niðurstaða verið komin í öll álitamálin næsta sumar.

magnusl@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×