Viðskipti innlent

Reynsluboltar miðla af reynslu sinni

Katrín Oddsdóttir
Katrín Oddsdóttir
Íslandsbanki hóf fyrr í ár að bjóða starfsfólki sínu upp á að vinna með lærimeistara, eða mentor, til að stuðla að starfsþróun innan bankans. Konum hefur hingað til boðist þátttaka en í haust mun körlum einnig bjóðast tækifæri.

Guðný Helga Herbertsdóttir, upplýsingafulltrúi Íslandsbanka, segir að þetta verkefni sé liður í því að efla starfsþróun starfsmanna bankans. „Þetta er góð leið fyrir þá reynsluminni til að sækja í brunn þeirra sem eru reynslumeiri og fyrir fólk til að þróa sig áfram í starfi, þróa eigin getu og færni. Markmiðið var fyrst og fremst að stuðla að starfsþróun innan bankans og það hefur gengið mjög vel."

Áhugasamir hafa komist í samband við lærimeistara í gegnum mannauðsstjórn bankans og er þá miðað við óskir og starfssvið viðkomandi. Verkefnið einskorðast ekki við fólk innan bankans en Katrín Oddsdóttir, forstöðumaður Einkabankaþjónustu VÍB, fær til dæmis að leita í reynslubanka Hrundar Rúdólfsdóttur, framkvæmdastjóra starfsþróunar hjá Marel. Katrín segir ýmislegt hafa vakið áhuga hennar á að taka þátt í þessu verkefni. „Ég hef unnið í bankanum síðan ég útskrifaðist úr háskóla, þannig að mig langaði til þess að kíkja út fyrir bankageirann til að fá speglun á tilveruna annars staðar. Fjármálageirinn, þar sem ég starfa, er frekar karllægt umhverfi og ég vildi fá sjónarhorn úr öðrum karlaheimi, og svo er Hrund með mikla reynslu af stjórnun sem hún getur miðlað til mín. Þá er ég líka tveggja barna móðir sem er að reyna að samþætta vinnu og heimilislíf, þannig að ég hugsaði mér að ég gæti lært mikið og bætt mig, bæði faglega og á persónulega sviðinu."

Katrín segist afar ánægð með reynsluna hingað til og vonast til þess að framhald verði á. - þj






Fleiri fréttir

Sjá meira


×